Korselett og þyndartap

22.08.2011

Hæhæ.

Ég er að fara gifta mig komin 12 vikur á leið með 3ja barn.  Ég vildi athuga hvort ég gæti verið í korseletti, er smá stressuð með það útaf aðhaldinu sem það veitir, en það er mikilvægt útaf kjólnum.  Hvað segið þið fróðu konur?   Ég er 10 kg þyngri en ég vil vera og er að léttast hægt og rólega, er ekki allt í góðu með það og sömuleiðis að gera magaæfingar?Komdu sæl.

Það er erfitt að segja með korselettið.  Það má ekki vera það þröngt að þér líði illa í því og það líði yfir þig.  Ef þér líður hinsvegar vel í þessu þá er allt í lagi með barnið líka.

Varðandi þyngdina er venjulega ekki mælt með megrun á meðgöngu en breytingar á mataræði til hins hollara leiða oft til þyngdartaps.  Þú mátt ekki svelta þig og þú þarft að þyngjast á meðgöngu en róleg þyngdaraukning er í lagi.  Öll hreyfing á meðgöngu er af hinu góða ef frá er talið hreyfing þar sem  þú ert í hættu á að detta eða fá högg í magann.  Kviðæfingar eða uppsetur eftir að kúlan er farin að myndast stytta kviðvöðvana til hliðanna og seinkar því að þeir nái saman eftir fæðingu.  Aðrar kviðæfingar eru í lagi.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
22. ágúst 2011.