Kryddaður matur á meðgöngu

23.10.2009

Komið þið sæl og takk fyrir frábæran vef!

Málið er að ég er 18 ára og komin 9 vikur og 6 daga og hef að undanförnu verið að laumast óvart í smá kryddaðan mat og sósur. Vildi bara vita hverjar afleiðingarnar af því eru því ég veit að á meðgöngu á að forðast kryddaðan mat og já vildi spyrja hvort það er hætta á einhverjum skaða á fóstri eða legi. Og í svona stuttu máli hvort þið vissuð að einhverju leiti hvað veldur hjartagalla og bara fæðingargöllum yfir höfuð (:

Fyrirfram þakkir!


Sæl og blessuð!

Kryddaður matur er almennt ekki talinn vera skaðlegur á meðgöngu en mörgum konum líður hins vegar illa af mikið krydduðum mat, sérstaklega þegar lengra líður á meðgönguna. Kryddaður matur eykur stundum brjóstsviða.

Í stuttu máli þá er oftast ekki að finna skýringu á fæðingargöllum né hjartagöllum. Það er þó vitað að fólínsýruskortur eykur líkur á miðtaugakerfisgöllum og þess vegna er konum á barneignaraldri ráðlagt að taka inn 0,4 mg daglega og barnshafandi konum a.m.k. fyrstu 12 vikur meðgöngunnar. Það er líka vitað að ýmis lyf, eiturlyf og áfengi geta valdið fæðingargöllum og þess vegna má ekki neyta eiturlyfja eða áfengis á meðgöngu.  Konur sem þurfa að taka inn lyf á meðgöngu þurfa að ráðfæra sig við lækni því stundum þarf að breyta lyfjaskömmtum og jafnvel skipta yfir í önnur lyf á meðgöngu.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
23. október 2009.