Spurt og svarað

10. desember 2008

Álag og áhyggjur - áhrif á barnið

Sælar og takk fyrir góðan vef.

Ég er gegnin rúmar 30 vikur og hefur meðgangan gengið mjög vel. Ég hef hins vegar áhyggjur af því hvaða áhrif það hefur á barnið að ég sé undir miklu álagi og stressi. Maki minn er að berjast við þunglyndi og hefur verið mjög slæmur seinasta árið og er ekki á það bætandi að við eigum í miklum fjárhagsvanda enda hefur hann verið óvinnufær í langan tíma. Sjálf hef ég minnkað við mig vinnu vegna þess að ég er hreinlega uppgefin enda hef verið að reyna að halda manninum mínum gangandi ásamt því að sjá alfarið um fjármálin og samningaviðræður sem þeim fylgja. Undanfarið hef ég fundið að samdrættirnir hjá mér eru að aukast og þá helst seinnipart dags og á kvöldin, kúlan verður hörð og þetta er nokkurn veginn sársaukalaust en mjög óþægilegt. Annars hreyfir krílið sig mikið og virðist ekki hafa hlotið skaða af. Er eitthvað sérstakt sem ég get gert til að slaka betur á svo ég skaði ekki barnið með þessu og er einhver hætta á að þetta komi fæðingunni af stað of snemma?


Sæl!

Það er ekkert sem segir að fæðingin fari of snemma af stað vegna þessa. Hins vegar sé ég að aðstæður þínar eru greinilega mjög erfiðar.Það eru ýmsar kenningar á lofti um að álag og streita móður hafi áhrif á barnið en engar beinar sannanir þar um og ekki að það sé skaðlegt. Þú í þessum ólgusjó verður að gera allt til að láta þér líða betur. Ég myndi byrja að ræða þetta í mæðravernd við þína ljósmóður og lækni og kannski geta þau vísað þér áfram með t.d viðtal við sálfræðing eða félagsráðgjafa. Þú veist best sjálf við hvaða aðstæður þú slakar best á og reyndu að skapa þannig andrúmsloft að þú getir slakað á þó ekki væri nema örstund á hverjum degi hvort sem er innan eða utan heimilis. Sumum finnst gott að skreppa í sund, göngutúr eða í heimsókn til góðra vina. Spurning væri að leyfa sér að fara í nuddtíma ef möguleiki er á eða bara leggjast upp í sófa með góða bók.

Með von um betri tíð.

Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
10. desember 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.