Kuldahrollur og virkni skjaldkirtils

08.08.2007

Sælar góðu konur, og kærar þakkir fyrir frábæra vefsíðu.

Ég hef verið að leita eftir fyrirspurn um kulda og hroll á meðgöngu, en það hefur ekki verið útskýrt hér á þessum vef nema með vísun í blóðleysi, stress og þvíumlíkt.

Ég var síðan að blaða í erlendri meðgöngubók og hnaut þá um smá grein sem fjallaði um að vöntun á skjaldkirtilshormóni, thyroxini, valdi einmitt svipuðum einkennum og þessi týpísku óléttueinkenni eru (þyngdaraukning, húðvandamál, vöðvaverkir og krampar, minnkuð kynhvöt, minnistap o.s.frv.) nema hvað að það sé auðveldara að greina þetta hormónaójafnvægi í óléttum konum því að þessu fylgi líka mikil næmni fyrir kulda - þar sem að óléttum konum sé jafnan mjög heitt.

Þetta vakti forvitni mína, þar sem ég að jafnaði heitfeng en ég hef orðið áþreifanlega vör við kulda og hroll síðan ég varð ólétt (er gengin 10 vikur og 2 daga þegar þetta er skrifað). Sömuleiðis er mikil skjaldkirtilsóregla í ættinni, en allar föðursystur mínar hafa þurft að glíma við þetta og ég hef alltaf verið meðvituð um að ég þyrfti að vera vakandi fyrir þessu.

Ætti ég að biðja ljósmóðurina um að mæla skjaldkirtilshormón með í blóðprufunni í 12 vikna skoðuninni? Ef upp kæmi að einhver óregla er í gangi - getur það haft einhver óæskileg áhrif á meðgönguna ef ekkert er við því gert? Ef þarf að grípa til ráðstafana vegna slíks ójafnvægis á meðgöngu, í hverju felst þá meðferðin?

Með þökk og kveðju, Hrönn.


Sæl og blessuð Hrönn og takk fyrir að leita til okkar!

Samkvæmt því sem ég hef lesið mér til þá er mikilvægt að meðhöndla vanstarfsemi skjaldkirtils með lyfjum á meðgöngu. Í ljósi fjölskyldusögunnar og þeirra einkenna sem þú finnur fyrir núna myndi ég ráðleggja þér að panta tíma hjá heimilislækni og fá úr þessu skorið sem fyrst.

Ef þig langar að fræðast meira um þetta þá fann ég fínt efni um þetta á netinu og þaðan eru vísanir í frekara efni.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
8. ágúst 2007.