Kvíðaröskun

26.10.2008

Hæ, hæ!

Ég hef þjáðst af ýmsum kvíðaröskunum í gegnum tíðina en sú sem ég hef áhyggjur af er felmtursröskunin sem ég greindist með fyrir tæp ári síðan. Ég var mjög fljót að leita mér hjálpar og hef fengið bæði sálfræðimeðferð og lyfjagjöf (Cipralex 10 mg). Ég hef verið góð síðan í mars og því byrjaði ég að minka lyfin í ágúst. Nú var ég að komast að því að ég er ólétt. Ég tók síðasta fjórðunginn af lyfinu mínu daginn sem ég komst að því. Kvíðinn truflar mig ekkert í daglegu lífi en einstaka sinnum vakna ég í kasti á nóttunni með hjartað alveg á milljón og það er svo vont. Ég get því ekki annað en velt því fyrir mér hvort það geti haft einhver áhrif á fóstrið? Ætti ég að tala við lækni um þetta strax eða er nóg að nefna þetta við fyrstu mæðraskoðun?

Takk fyrir góð svör :)


Sæl og blessuð!

Þú ættir að ræða málið sem allra fyrst við lækni. Það getur vel verið að það sé þér og barninu fyrir bestu að taka inn lyf á meðgöngunni. Samkvæmt upplýsingum í Sérlyfjaskránni þá ætti ekki að nota Cipralex á meðgöngu, nema brýna nauðsyn beri til og aðeins eftir að ávinningur og hugsanleg áhætta hefur verið metin.  Þetta er nákvæmlega það sem læknirinn þinn þarf að meta og fara yfir með þér.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. október 2008.