Spurt og svarað

11. október 2012

Kviðslit fyrir meðgöngu

Hæhæ og takk fyrir frábæran vef.
Mig langaði að spyrja aðeinu, ég kviðslitnaði við fæðingu og það hefur aldrei verið lagað. Ég er núna komin 34v+ og er farin að finna svolítið fyrir verkjum svona rúmlega 10 cm fyrir neðan nafla, frekar neðarlega. Hefur verið bent á að það sé mögulega vegna kviðslits. Finnst erfitt að rétta úr mér og get stundum engan vegin staðið fram úr rúminu því það er svo vont. Í nótt var ég með frekar mikla samdrætti og þetta í sambland og það var eiginlega alveg hrikalegt. Er eitthvað sem þið getið ráðlagt mér að gera til að hjálpa mér gegn þessum verkjum?

 Komdu sæl.
Mjög líklegt er að þetta kviðslit sem þú fékkst í síðustu fæðingu sé að trufla þig. Nokkrar fyrirspurnir eru hér á vefnum um kviðslit og vil ég benda þér á að skoða þær, til dæmis þessa. Ef þú finnur mikið til er mikilvægt fyrir þig að hafa samband við lækni. Einnig ef þú ert með mikið af samdráttum að láta kíkja á þig til þess að vera viss um að þetta séu ekki samdrættir sem eru að hafa áhrif á leghálsinn. Ef samdrættir eru fleiri en 4 á klukkustund er það ekki eðlilegt og alls ekki ef þú ert með verki með þeim. Ef þú kíkir í fyrirspurnina sem ég benti á er kannski lítið hægt að gera við kviðslitinu á meðgöngu því læknar vilja helst ekki gera aðgerð á barnshafandi konum en eins og ég segi ef þetta er mikið að trufla þig er mikilvægt að ráðfæra sig við lækni. Gott er fyrir þig að reyna að forðast allt álag á kviðinn og ekki lyfta þungum hlutum. Einnig getur verið gott að vera með góðan stuðning við kviðslitið sérstaklega þegar þú hnerar eða hóstar og þá styðja við með höndinni. Gott er líka að prufa að styðja við þegar þú réttir úr þér og stendur upp úr rúminu og sjá hvort að það minnki sársaukann. Einnig er mikilvægt að reyna að forðast mikla áreynslu sem veldur sársauka. Vona að þetta hjálpi og gangi þér vel.

Kveðja,
Súsanna Kristín Knútsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
11. október 2012

 


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.