Kviðvöðvar á meðgöngu

09.06.2010

Takk kærlega fyrir góðan vef.

Þannig er að ég er nú gengin 23 vikur. Það er í raun fyrst núna sem eitthvað er farið að sjá á mér (fyrsta barn). En það sem ég er að velta fyrir mér er að mér finnst vera komið nokkuð mikið bil á milli kviðvöðvanna og finnst erfitt að beita þeim rétt, þar sem þeir eru nú hliðlægari en áður ( á erfitt með að útskýra þetta). Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort ég geti eitthvað styrkt vöðvana og hvort þetta bil sé komið til að vera þó ég viti að það minnki ef til vill eitthvað.


Sæl.

Kviðvöðvarnir færast í sundur til að gefa kúlunni pláss til að vaxa.  Þetta jafnar sig svo aftur eftir fæðingu.  Ef þú gerir kviðæfingar (uppsetur) ert þú að stytta vöðvana enn frekar út til hliðanna og þá eru þeir lengur að ná saman í miðjunni eftir fæðinguna.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
9. júní 2010.