Kynlíf og grindargliðnun

26.06.2008

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef.

Ég er komin 22 vikur á leið með annað barn og er búin að vera dálítið slæm af grindargliðnun síðasta mánuðinn. Síðustu vikur hef ég ekki verið að stunda mikið kynlíf. Núna um daginn fékk mjög heiftarlega grindarverki eftir kynlíf, sem leiddu niður í fætur og náðu yfir mun meira svæði en ég hef nokkurn tíma áður upplifað. Getur verið að kynlífið hafi komið þessum verkjum af stað? Getur verið að fullnæging komi þessum verkjum af stað? Ég  hef ekki þorað að stunda kynlíf aftur eftir þessa reynslu. Ég hef verið að lesa um grindargliðnun og á flestum stöðum stendur að kynlíf eigi ekki að hafa áhrif á grindarverki. Ég tengi þetta samt beint saman í mínu tilfelli.

Bestu kveðjur.


Sæl

Ég myndi nú ekki ætla að bein áhrif séu frá fullnægingu á grindarverki. Það er mun líklegra að stellingar hafi þar eitthvað að segja. Ef þú ert svona slæm væri kannski ráð fyrir þig að velja stellingar sem reyna minna á mjaðmagrindina þar sem þú getur haft fæturna meira saman, eins og t.d. hliðarlega. Prófið ykkur bara áfram með hvað hentar og þá ætti ekki að þurfa að draga úr kynlífsiðkun.

Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. júní 2008.