Spurt og svarað

26. nóvember 2007

Kynlíf og samdráttaverkir

Sælar og takk fyrir frábæran vef sem er uppfullur af góðum fróðleik!  

Þannig er mál með vexti að ég er komin 33 vikur á leið. Ég hef verið heima að hvíla mig samkvæmt læknisráði síðan á 28 viku þar sem ég er búin að vera með mikla samdrætti og nokkra verki.  Ég greindist með streptókokkasýkingu þegar ég var komin 24 vikur og síðan þá hefur verið tómt vesen með samdrættina.  Ég fékk sýklalyf við sýkingunni og búið er að taka annað strok sem var allt í lagi með.  Ég fór í skoðun fyrir 10 dögum og þá sagði doktorinn að leghálsinn væri dálítið styttur og mjúkur en ekkert til þess að hafa of miklar áhyggjur af.  Síðan í gærkvöldi eftir kynlíf fékk ég rosalega sára ,,túrverki" og mikla samdrætti ég var u.þ.b að fara að hringja upp á deild þegar þetta lagaðist aftur eftir ca klst (ég var þá búin að taka verkjalyf). Í dag er ég síðan búin að vera með dálítið mikla samdrætti og smá seiðing í mjóbakinu.  Ljósan mín hafði sagt við mig að kynlíf væri ílagi svo lengi sem ég treysti mér til þess.  Í ljósi alls þessa var ég að spá hvort við ættum kannski að sleppa kynlífinu og hvort ég ætti að hafa áhyggjur af leghálsinum vegna þessara verkja? 

Með fyrirfram þökk,

Ein stressuð!


Komdu sæl.

Það er svolítið erfitt fyrir mig að ráðleggja þér í þessu þar sem ég veit ekki alla söguna.  Gengur þú með fyrsta barn eða áttu barn fyrir eru t.d. mikilvægar upplýsingar. 

En burtséð frá því þá er eðlilegt að finna samdrætti í leginu eftir samfarir og fullnægingu.  Ef þér finnst samdrættirnir vera meiri og verkir meiri og lengur en annars þá getur það verið merki um að taka sér smá hvíld.  Sérstaklega þar sem þú ert með sögu um mikla samdrætti og verki sem kannski hafa eitthvað verið að breyta leghálsinum (fer eftir því hvort þú átt barn fyrir).

Ég vil samt ráðleggja þér að tala um þetta við lækninn þinn og ljósmóðurina þína, sem þekkja þig og það sem hefur gerst á meðgöngunni, og geta því ráðlagt þér útfrá því.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
26.11.2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.