Spurt og svarað

11. desember 2006

Kynlíf og snerting á meðgöngu

Sælar og bestu þakkir fyrir frábæra síðu.

Ég er nú að ganga með þriðja barn okkar hjóna og upplifi nú hálfgerða "óbeit" á allri líkamlegri snertingu við manninn minn. Ég er rétt að skríða í 12 vikurnar og hef verið þreytt og döpur en þess þá heldur ætti mér að þykja gott að fá að atlot frá honum, eða hvað? Þetta eru mjög ruglingslegar tilfinningar því samtímis elska ég hann, vill eignast þetta barn með honum og veit að ég mun þurfa að treysta mikið á hann þegar ég verð þyngri á mér og eins þegar nýja barnið kemur í heiminn.  Ég get ómögulega látið mér detta í hug hvernig ég get útskýrt þetta fyrir honum. Þetta fer nú samt að sjálfsögðu ekki fram hjá honum og ég veit að hann upplifir mikla höfnun og reiði.  Við höfum í mörg ár upplifað streitu í sambandinu okkar vegna mismikillar kynlöngunar og þetta bætir eiginlega bara gráu ofan á svart. Sambandið okkar hefur að öðru leyti verið traust en nú finnst mér ég hreinlega ekki hafa orku í að takast á við þetta mál og óttast að við gætum endað í ógöngum.

Getið þið hugsanlega hjálpað mér að átta mig á þessu?

Kær kveðja,
SG


Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er vel þekkt að konum líði svona eins og þér líður á meðgöngu.  Þreyta, hormónabreytingar og ég tala nú ekki um ef ógleði er líka til staðar hafa þessi áhrif.  Andlegir þættir eins og það að konan hugsar stöðugt um barnið sem hún ber og setur það ósjálfrátt í fyrsta sæti hafa líka áhrif.  Oftast lagast þetta að einhverju leiti þegar fyrstu þrír mánuðirnir eru liðnir og konunni fer að líða betur.  Ástandið versnar svo aftur á síðasta hluta meðgöngunnar þegar þyngslin aukast og fyrirferðin verður meiri.  Þá verður konan líka þreyttari aftur, stellingar allar erfiðari o.s.frv.  Þungun má líkja við að konan sé allan daginn í leikfimi, hún hefur svo mikil áhrif á líkamann.  Ofan á það bætist allt annað sem konan þarf að gera eins og að sjá um önnur börn, vinna o.fl.  Kynlífið lendir svo í síðasta sæti.  Þetta á líka við um líkamlega snertingu en oft tengja konan atlot við kynlíf þannig að ef maðurinn snertir hana þá finnst henni að það hljóti að enda með samförum og neitar snertingunni af því hún er ekki í stuði fyrir samfarir.  

Það er gott fyrir þig að átta þig á því af hverju hlutirnir eru svona og hvað er hægt að gera til úrbóta.  Það er líka eðlilegt að manninum þínum finnist honum hafnað og sé reiður.  Hann upplifir meðgönguna allt öðruvísi en þú.  Ennþá er þetta óraunverulegt fyrir honum og hann finnur ekki þetta sem þú finnur allan sólarhringinn, breytingarnar á líkamanum þínum sem eru sönnun þess að barn sé í vændum.  Þú segist ekki hafa orku í að taka á málinu en það er samt nauðsynlegt að ræða málin og komast að einhverri málamiðlun.  Segðu honum hvernig þér líður og fáðu hann til að segja þér hvernig honum líður.  Það er byrjunin á því að koma í veg fyrir að þið lendið í ógöngum. 

Ef þér finnst þú vera eitthvað óeðlilega döpur skaltu ræða það við ljósmóðurina þína og lækni þar sem það er þekkt að konur verði þunglyndar á meðgöngu og það bætir ekki á ástandið.  Best er að fá hjálp við því sem fyrst ef um eitthvað þannig er að ræða.  Einnig gæti verið gott ráð að leita til ráðgjafa varðandi kynlífsvandamálin þar sem þetta er ekkert nýtt eftir því sem þú segir.  Meðgangan er mikill álagstími fyrir hjónin bæði þó það sé á ólíkan hátt og því hafa vandamál tilhneigingu til að verða verri á þessum tíma ef ekki er unnið í að bæta þau.

Gangi þér vel.

yfirfarið 29.10.2015Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.