Spurt og svarað

22. júní 2009

Kynsvelt á meðgöngu

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef. 

Ég er að velta því fyrir mér hversu algengt það sé að tilvonandi feður missi algjöran áhuga á kynlífi með konu sinni á meðgöngu. Ég hef ekki stundað neitt kynlíf með manninum mínum eftir að ég varð ólétt, þá á ég við EKKERT kynferðislegt athæfi hefur átt sér stað. Ég hef margoftreynt við hann en hann vill mig ekki. Ég hef talað um það við hann að ef hann vilji ekki samfarir þá sé margt annað hægt að gera og ég hef verið umburðarlynd og skilningsrík en nú er ég farin að óttast framtíðina. Nú er ég grönn og hraust, meðgangan gengur vel, það sér ekki mikið á mér og ég er meira en hálfnuð með meðgönguna. Þetta er frumburður hans en mitt annað barn. Ég upplifi mikla höfnunartilfinningu og finnst innileiki sambandsins deyja út, þótt sambandið sé ljúft á mörgum sviðum og við elskum hvort annað þá truflar það mig mikið að hann vilji mig alls ekki á kynferðislegum nótum. Hann stundar sjálfsfróun þegar ég er ekki heima, jafnvel þótt ég hafi reynt við hann rétt áður en ég skrapp út úr húsi.  Ég hef reynt að skapa rómantísk kvöld, kveikja á kertum, flaska af víni og elda góðan mat. Ekkert virðist virka. Hann bókstaflega vill mig alls ekki. 

Ég hef þrisvar sinnum endað sambandið og flutt af heimilinu í nokkra daga tímabundið vegna þessa en ég kem alltaf aftur því hann lofar mér því að hann elski mig af öllu hjarta og vilji enga aðra konu, þráir fjölskyldulíf með mér, hann lofar og lofar að laga þetta og rækta... nema ekkert gerist. Hann veit að ég er að missa allt sjálfstraust.

Ég keypti handa honum bók fyrir verðandi feður og þar er kafli um kynlíf. Það virðist vera fjallað sérstaklega um það að karlmenn eigi til að missa niður alla kynlöngun á meðgöngu eins og konur.  Þar eru margar ráðleggingar til að viðhalda samt sem áður ástinni en hann fer ekkert eftir því. Samt finnst mér að meðgöngukvillar móður sé réttlætanlegri afsökun heldur en bara það að allt í einu finnist manninum ekki lengur ólétta konan sín "sexy".  En þetta gerir sambúðina erfiða, ég er ekki viss um að ég vilji hafa hann hjá mér í fæðingunni því ef honum finnst ég og kynfæri mín svona viðbjóðsleg þá kæri ég mig ekki um að hafa hann nálægt mér þegar ég verð berskjölduð og ber í fæðingu.  

Ég hugsa með mér að ég gef honum skilning út meðgönguna en um það leiti sem ég er komin í lag eftir fæðingu og á að geta sofið hjá aftur þá hefur maðurinn minn ekki sofið hjá mér í næstum því heilt ár!  Ég er að vona að kynlöngun mín hverfi þegar ég hef barnið mitt á brjósti og þá kannski kemst jafnvægi á þetta. Ég hugsa stöðugt um það að skilja við hann ef þetta mun halda áfram með viðteknum hætti eftir að barnið fæðist, að þá verði aðrar afsakanir í spilinu. Mér þykir meðgangan vera léleg afsökun þar sem ég lít vel út, þótt það sé komin smá bumba þá hef ég aldrei verið jafn næm.  Svo segist hann elska mig heitar en allt. Hvernig á kona að skilja svona?  Jafna menn sig og kemur þetta aftur? Er algengt að sambönd og fjölskyldur splundrist vegna kynlífsleysis? Er ósanngjarnt af mér að ætlast til þess að maki minn standi við sínar kynferðislegu skyldur gagnvart mér?

Kveðja reið kynsvelt verðandi móðir 


Komdu sæl.

Þetta er ekkert einfalt mál þegar svona er komið. Það er ekki það að honum finnist þú bara ekki sexy heldur getur hann verið hræddur um að meiða barnið eða hafa áhrif á það á meðgöngunni og  sumum finnst líka óþægilegt að vita af þriðja aðila á staðnum.  Það er ekki hægt að neyða hann til kynlífs ef hann vill það ekki. 

Mér finnst kominn tími til að fá hjónabandsráðgjafa í málið þar sem þú ert farin að leiða hugann að skilnaði.  Þú ert búin að prófa allt annað nema það kemur ekki fram að þú hafir fengið að heyra frá honum af hverju hann er afhuga kynlífi á meðgöngunni.  Að þið hafið sest niður í rólegheitum og rætt málin á yfirvegaðan hátt.  Reynt að skilja hvort annað.

Venjulega er þetta ekki vandamál hjá mönnum eftir fæðingu og ég hef ekki heyrt af því að mörg sambönd splundrist vegna þessa.

Gangi ykkur vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
22. júní 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.