Spurt og svarað

05. febrúar 2010

Alltaf þreytt

Sælar og takk fyrir frábæran þráð :)

Það er eitt sem mig langar að fá svar við en það varðar þreytu, en ég er núna komin rétt tæpar 12 vikur og ég er alltaf þreytt og er búin að vera hrikalega þreytt síðan á 6. viku. Ég geri mér grein fyrir að það er eðlilegt að vera þreyttari á meðgöngu og þurfa að sofa meira, en er virkilega eðlilegt að þurfa að sofa í 12-13 tíma á dag? Ég sef í lágmark 9 tíma á nóttu og svo um það bil 2-3 tíma á daginn. Ég er alltaf þreytt á morgnana og á erfitt með að hafa mig á fætur og það sama á við á daginn/kvöldin þó ég sé kannski búin að sofa þá í 2-3 tíma, þá á ég erfitt með að vakna og er áfram þreytt eftir að ég vakna. Ég hef reynt að sleppa því að leggja mig á daginn og fara fyrr að sofa í staðinn, en það þýðir yfirleitt lítið því ég ræð ekki við mig fyrir þreytu og sofna þá bara í sófanum yfir sjónvarpinu eða eitthvað.Er mögulega hægt að draga eitthvað úr þessari þreytu með töku vítamína eða eitthvað, en ég hef verið að taka fólinsýru, járn og C vítamín, ætti ég að taka einhver önnur vítamín líka? Á svo ekki örugglega að draga úr þessari þreytu upp úr 12. viku?

Kveðja, ein sem er orðin þreytt á að vera alltaf þreytt.


Sæl og blessuð!

Þessi þreyta sem þú lýsir getur alveg talist eðlileg á þessum tíma meðgöngunnar. Það er mjög misjafnt hve mikið konur finna fyrir þessu og sumar finna ekki fyrir neinni þreytu. Það er gott að huga að næringu þinni og hreyfingu. Nú er mjög mikilvægt að borða holla fæðu fyrir þig og barnið þitt. Þú skalt reyna að borða fæðu sem er næringarík en reyna að forðast mikla sykurneyslu sem getur dregið mjög úr orkunni. Eina vítamínið sem öllum konum er ráðlagt að taka a.m.k. fyrstu 12 vikur meðgöngunnar er fólínsýra en það er sjálfsagt fyrir þig að taka fjölvítamín í ráðlögðum dagskömmtum ef þú ert svona þreytt - kannski vantar vítamín í kroppinn. Það er líka gott fyrir þig að hreyfa þig eitthvað og t.d. getur þú prófað að fara í göngutúr í stað þess að leggja þig á daginn. Það er líklegt að þetta fari að lagast nú þegar þú ert að ljúka fyrsta þriðjungi meðgöngunnar.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunafræðingur,
5. febrúar 2010.

 

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.