Lágt PAPP-A gildi í blóðprufu

26.04.2010

Sæl!

Ég fór í samþætt líkindamat við 13 vikur og fékk niðurstöðuna 1:237.Ég er 36 ára og hnakkaþykktin var 2.0-2.2.Miðað við þessar tölur voru líkurnar mínar 1:507 en þegar blóðprufan var reiknuð inní þá var lokatalan 1:237. Í blóðprufunni mældist HCG eðlilegt en PAPP-A var ekki nema 0.46. Út frá þessum niðurstöðum fór ég í fylgjusýnatöku þar sem kom í ljós að ekki væri um litningagalla að ræða. Ljósmóðirin sem ég ræddi við á LSH vildi ekki meina að PAPP-A gildið mitt gæfi vísbendingar um einhverja aðra galla eða vandamál og sagði að þegar það mældist 0.3 eða lægra (minnir mig) þá væri fylgst sérstaklega með vexti fósturs. Ég gerði svo þau mistök að "gúggla" um lágt PAPP-A gildi og fann skrif (á ensku) um líkur á allskonar vandamálum í tengslum við fylgjuna, fósturlát, háþrýsting, fyrirburafæðingar o.fl. Getið þið sagt mér eitthvað meira um þetta og á ég að þrýsta á að fá extra skoðanir í framhaldinu og/eða í mæðraverndinni minni.

Kveðja, 15 vikna bumba.


Sæl!

Lágt PAPP-A getur haft   þýðingu ef gildin eru lægri  en 0,30 mom og eru vinnureglurnar hér á deildinni (samkvæmt fyrirmælum fetalmedicine foundtation, samstarfsaðila okkar í Englandi) að fylgjast þá með vexti barnsins við 28 vikur og aftur við 32 vikur. Þessar vinnureglur hafa virkað mjög vel og ekki verið sýnt fram að nánara eftirlit þurfi. Miðað við þínar niðurstöður, getur þú verið róleg, væntanlega átt þú tíma hjá okkur við 20 vikur, og ef sú skoðun er eðlileg er ekki þörf á frekari eftirliti.

Kveðja og gangi þér vel,

María Hreinsdóttir,
ljósmóðir á fósturgreiningardeild,
26. apríl 2010.