Lakkrís og hætta á fyrirburafæðingum

14.02.2008

Sælar!

Ég var að lesa á netinu að lakkrísneysla á meðgöngu geti valdið fyrirburafæðingu og fósturgöllum hjá strákfóstrum. Er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af, eða gildir þetta bara ef um „baðker“ á dag er að ræða?

Ég hef hvergi rekist á umræðu um þetta hér á landi. Borgar sig ekki að sleppa alveg lakkrísáti? Þetta virtust vera nokkuð afgerandi rannsóknarniðurstöður hvað fyrirburafæðingarnar varðaði a.m.k.


 Sæl og blessuð!

Fyrir nokkrum árum birtist rannsókn sem gerð var í Finnlandi sem bendir til þess að konur sem borða mikið af lakkrís séu í meiri hættu á að fæða fyrir tímann. Upphaflega fór þessi rannsókn af stað til að kanna hvort lakkrísneysla hefði áhrif á fæðingarþyngd en það reyndist ekki hafa nein áhrif á hana. Í rannsókninni kom hins vegar í ljós að konur sem borðuðu meira en 250 grömm af lakkrís á viku voru helmingi líklegri til að fæða fyrir tímann (< 37 vikur) en þær sem borðuðu minna en sem svarar 125 grömmum á viku. Þessar niðurstöður gefa vissulega vísbendingu en það er þó ekki hægt að fullyrða neitt út frá þessum niðurstöðum þar sem upplýsingum um lakkrísneyslu var safnað eftir á og það þykir ekki vera nægjanlega áreiðanleg rannsóknaraðferð.  Hins vegar er þetta ekki út í hött því fræðilega séð getur lakkrís aukið myndun prostaglandína og þannig flýtt fyrir fæðingu.

Ég fann ekkert um lakkrísneyslu og fósturgalla en þú mátt gjarnan senda mér upplýsingar um hvar þú last þetta og þá skal ég skoða það nánar.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. febrúar 2008.