Fréttir

Áfengisneysla og brjóstagjöf - kynnið ykkur málið!

13.mars 2008

Nú í vikunni birtist frétt á mbl.is um áfengisneyslu og brjóstagjöf. Þar kemur fram að konur með barn á brjósti megi drekka vín og áfenga drykki í hófi. Sænska manneldisráðið sem hefur hingað til hefur ráðlagt konum að drekka ekki áfengi þar sem talið var að það findi sér leið í gegnum brjóstamjólkina og gæti haft skaðleg áhrif á barnið hefur nú horfið frá þeirri stefnu og hefur yfirfarið öll þau ráð sem gefin eru óléttum konum og konum með barn á brjósti og komist að þeirri niðurstöðu að tími sé kominn til að færa sum þeirra til nútímans.

Samkvæmt nýju ráðgjöfinni eiga konur með barn á brjósti að geta drukkið eitt til tvö vínglös einu sinni til tvisvar í viku en óléttar konur eiga eigi að síður að halda sig frá öllu áfengi.

Vitnað er í rannsóknir Olle Hernell prófessors í ungbarnalækningum við háskólann í Umeå en hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að hófleg áfengisneysla kvenna með barn á brjósti sé ekki skaðleg fyrir barnið.

Í íslenskum ráðleggingum um áfengi og brjóstagjöf sem birtar eru á vef miðstöðvar mæðraverndar segir:

Ef móðirin drekkur áfengi þá skilar hluti alkóhólsins sér í brjóstamjólkina. Ef áfengi er drukkið með mat skilar það sér í minna mæli í brjóstamjólkina. Drekki móðirin eitt lítið léttvínsglas tekur það líkama hennar um tvær klukkustundir að losa sig við alkóhólið. Það er ekkert hægt að gera til að flýta þessu ferli (vatns- eða kaffidrykkja, hvíld, losun brjóstamjólkur). Mælt er með að móðirin bíði tvær klukkustundir fyrir hvert léttvínsglas sem hún neytir, þar til hún gefur brjóst (tvö léttvínsglös = fjórar klukkustundir).

Áhrif áfengisneyslu móður á barnið er í beinu samhengi við það magn sem hún drekkur. Mikil áfengisneysla móður hefur þau áhrif að mjólkurframleiðslan minnkar. Einnig hefur mikil áfengisneysla móður áhrif á barnið, sem verður syfjaðra og drekkur minna en það þarf. Það dregur úr vexti og hreyfiþroska barnsins. Vert er að hafa í huga að nýfætt barn fæðist með óþroskaða lifur og þess vegna hefur alkóhól meiri áhrif á það. Það tekur 3 mánaða barn helmingi lengri tíma að útskilja alkóhól úr líkamanum en fyrir fullorðinn einstakling.

Valmynd