Fréttir

RS lokanir á Landspítala

12.desember 2018

Nú eru farin að greinast tilfelli af RS vírus meðal barna og því er búið að loka fyrir heimsóknir barna yngri en 12 ára á Fæðingarvakt, Vökudeild og Meðgöngu- og sængurlegudeild. Þessar lokanir eru gerðar til að vernda viðkvæma nýbura fyrir sýkingum. Einstaklingar 12 ára og eldri eru einnig beðnir að huga vel að því að koma ekki inn á deildir ef þeir finna fyrir einhverjum kvefeinkennum og almennt eru foreldrar beðnir að halda öllum heimsóknum í algjöru lágmarki. Í flestum tilfellum er dvölin á sjúkrahúsinu stutt og gott fyrir nýbakaða foreldra að njóta þess að vera ein með barninu/börnunum og kynnast betur. 

Gott er að beina þeim tilmælum til gesta, bæði á sjúkrahúsi og eftir að heim er komið, að þvo sér vel og spritta hendur. Þá er ráðlegt að foreldrar sem eiga eldri börn á leikskólum eða yngri bekkjum grunnskóla að láta börnin þvo sér og spritta þegar þau koma heim og jafnvel skipta um föt. 

Hvað er RS Veira?

RS-veiran tilheyrir hóp veira sem leggjast á öndunarfæri og valda þar sýkingum. Veiran veldur sýkingu í efri öndunarfærum (kvef), þessar sýkingar eru tiltölulega einkennalitlar og er algengast að sjá þær hjá fullorðnum og eldri börnum. En veiran getur einnig valdið sýkingum í neðri hluta öndunarfæranna s.s. lungnabólgu, berkjubólgu og barkabólgu. Þessar sýkingar eru alvarlegri og er algengast að sjá þær hjá ungum börnum en einnig geta aldraðir og þeir sem hafa undirliggjandi sjúkdóma fengið slæmar sýkingar.Algengast er að sýkingar verði á veturna og vorin og veldur veiran þá gjarnan faröldrum hjá ungum börnum. Algengast er að börn sýkist á aldrinum 6 vikna – 6 mánaða, en um 90% 2 ára barna hafa sýkst a.m.k. einu sinni af RS-veirunni. Þrátt fyrir að líkaminn myndi mótefni við sýkingu þá eru endursýkingar algengar í öllum aldurshópum

(doktor.is) 

Hér má lesa nánar um RS vírusinn

Valmynd