Keiluskurður

Keiluskurður er aðgerð sem er gerð vegna frumubreytinga í leghálsi. Slíkar frumubreytingar eru forstig leghálskrabbameins. Aðgerðin er gerð gegnum leggöng (leghálsspeglun) yfirleitt í staðdeyfingu þar sem sá hluti leghálsins sem hefur frumubreyst er fjarlægður. Hérlendis er nánast alltaf notaður sérstakur brennsluhnífur (LEEP-  loop electrosurgical excision procedure). Aðrar leiðir eins og skurðhnífur (e. cold knife), frysting og laser eru einnig mögulegar. Sá hluti leghálsins sem er fjarlægður er svo sendur í vefjarannsókn. Læknirinn hefur samband þegar niðurstöður liggja fyrir úr rannsókninni sem ætti að vera innan tveggja vikna. Það tekur um það bil 4-6 vikur fyrir leghálsinn að gróa eftir aðgerðina en ekki er ráðlagt að verða þunguð fyrr en í fyrsta lagi þrem mánuðum eftir aðgerð. Aðgerðin sjálf tekur yfirleitt ekki langan tíma og geta flestir farið heim samdægurs.

Keiluskurður og meðganga

Lítillega aukin hætta er á ákveðnum fylgikvillum á meðgöngu hjá konum sem hafa farið í keiluskurð á leghálsi. Á meðal þeirra fylgikvilla geta verið fæðing fyrir tímann, léttburafæðing, leghálsbilun , leghálsþrenging og myndun örvefs á leghálsi. Talað er um leghálsbilun þegar að leghálsinn gefur sig á öðrum þriðjungi meðgöngunnar, oft með þeim afleiðingum að legvatnið fer. Þessir fylgikvillar geta stafað hvort tveggja vegna frumubreytinganna sem verða á leghálsinum og einnig vegna þess að tekinn er hluti af honum. Aðferðin sem notuð er við keiluskurðinn getur einnig skipt máli. Til dæmis er ekki talin aukin áhætta á fyrirburafæðingu fyrir 34 vikur hjá konum þar sem notast var við brennsluhníf. Hins vegar er áhættan aðeins aukin hjá þeim þar sem notast var við skurðhníf. Mælt er með leghálsmælingu á tveggja vikna fresti frá 16. viku hjá þeim konum sem farið hafa oftar en einu sinni í keiluskurð, ef skurðurinn var mjög stór eða ef notast var við skurðhníf. Þess vegna er mikilvægt að láta ljósmóður í mæðravernd vita ef farið hefur verið í keiluskurð svo hægt sé að gera áætlun um meðgönguvernd út frá því hvernig aðgerðinni var háttað.

Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að fósturlát á öðrum þriðjungi meðgöngu sé algengara hjá konum sem hafa farið í keiluskurð. Hins vegar er fósturlát á fyrsta þriðjungi ekki algengara  en hjá konum sem ekki hafa gengist undir skurð og keiluskurður virðist ekki hafa marktæk áhrif á frjósemi kvenna en áhrif eru ekki útilokuð.

Keiluskurður og fæðing

Eftir keiluskurð getur orðið þrenging á leghálsinum og örvefur getur myndast. Þetta getur valdið því að útvíkkun í fæðingu gangi hægar fyrir sig en ella. Það er vegna þess að örvefurinn í leghálsinum gefur verr eftir en vefur í leghálsi sem ekki hefur verið gerð aðgerð á. Talið er að þetta gerist í um það bil 10% tilfella.


Valmynd