Meðgangan

Þungunarprófið er jákvætt - til hamingju þú átt von á barni! Hvað gerist næst?

Hér er stiklað á stóru um það sem þú getur gert meðan þú bíður eftir því að hitta barnið þitt.

  • Notaðu meðgöngureikninn til að komast að því hvenær barnið á að fæðast.
  • Skoðaðu hvert þú ferð í meðgönguverndina. Það er oftast nær á heilsugæslustöðina í því hverfi sem þú býrð. Pantaðu svo viðtal við ljósmóðurina á þeirri stöð. Best er að hitta ljósmóður þegar þú ert komin um það bil 10 - 12 vikur á leið. Gott er að maki komi með í skoðunina.
  • Hugsaðu um hvort þú vilt fara í hnakkaþykktarmælingu við 12 vikna ómskoðun.
  • Hugsaðu vel um heilsuna. Heilbrigt líferni er alltaf mikilvægt en ekki síst þegar annar einstaklingur er að vaxa og dafna inni í þér. Taktu fólin sýru og D vítamín, borðaðu hollan mat, hreyfðu þig og passaðu að sofa nóg. Það er eðlilegt að vera mjög þreytt fyrstu vikurnar.
  • Hafðu í huga að sumt er ekki ráðlegt að gera á meðgöngu. Þú þarft ekki að forðast marga hluti en sumt er ekki mjög heppilegt að gera á meðgöngunni. Reykingar, neysla áfengra drykkja, fíkniefni, koffín í óhófi, sumar matartegundir og sum lyf eru dæmi um það sem er ekki æskilegt. 
    Ef þú tekur einhver lyf skaltu strax ræða það við lækninn þinn eða ljósmóður hvort það sé í lagi að halda áfram töku þessara lyfja eða hvort skipta eigi yfir í heppilegra lyf.
  • Ekki fá allar konur meðgöngukvilla en margar fá einhverja. Mjög algengt er að finna fyrir ógleði og/eða uppköstum, mikilli þreytu, eymslum í brjóstum og tíðum þvaglátum. Þetta er bara það algengasta en flestir meðgöngukvillar þó hvimleiðir séu eru ekki hættulegir. 
  • Þú upplifir líkamlegar breytingar. Flestar konur eiga von stækkandi maga og stærri brjóstum en margar aðrar líkamlegar breytingar geta komið til. Ekki láta koma þér á óvart þó að bólur aukist eða dökkir blettir komi á húð. Seinni hluta meðgöngu getur einnig komið smá bjúgur á fætur, talsvert margar konur fá æðahnúta, sem oft lagast mikið eftir fæðingu og einnig er slit á húð nokkuð algengt.  Hvernig konur upplifa meðgönguna, hvaða einkenni hver fær er mjög einstaklingsbundið milli kvenna og jafnvel milli meðganga hjá  sömu konu.
  • Meðganga, fæðing og að kynnast nýjum einstaklingi er ferill sem flestir  ganga ekki oft í gegnum á lífsleiðinni, það er því um að gera að njóta upplifuninnar til fulls og undirbúa sig sem best bæði andlega og líkamlega fyrir þessar spennandi breytingar sem eru um það bil að verða á lífi þínu.

 

Valmynd