Ógleði

ÓGLEÐI

Lykilorð við ógleði

 • Hvíld

 • Vökvi

 • Hitaeiningar

 • Hreinlæti

 • Hreyfing

Morgunógleði á meðgöngu er algeng og oftar en ekki finna konur fyrir þessu fyrstu vikur meðgöngunnar. Ógleðin dregur oftast nær úr matarlyst. Það er tilgangslaust að borða holla fæðu ef þú kastar henni strax upp. Borðaðu mat sem þú getur haldið niðri þó að það sé ekki það hollasta. Löngun í mat getur verið leið náttúrunnar til að vernda móður og barn í meðgöngu og stundum getur ákveðin fæða rofið vítahring ógleðinnar. Gott er að taka fjölvítamín ef þú getur.

Ekki hefur nákvæmlega verið greint hvað veldur ógleði á meðgöngu. Eitt af því sem talið er geta verið sökudólgurinn er aukin hormónaframleiðsla, einkum estrogen og líkaminn á erfitt með að aðlagast þeim miklu breytingum sem verða. Í kringum fjórða mánuð meðgöngu fer hormónamagnið aftur lækkandi og þá dregur oft úr ógleði og uppköstum. Hormónastyrkurinn fer svo vaxandi við fimm til sex mánaða meðgöngu og stundum aukast þá ógleði og uppköst að nýju. Þessar hormónabreytingar hægja á meltingu en þegar maginn er lengi að tæmast eru auknar líkur á ógleði. Rannsóknir sýna að aukning á hormónum hefur áhrif á efnaskipti líkamans sem leiðir til minnkunar á söltum en það hefur áhrif á og getur valdið ógleði og uppköstum. Aðrar rannsóknir telja að enzím sem festir fylgju og fóstur við legveginn geti valdið lækkun á blóðsykri sem leiði til ógleði. Einnig er talið að aukin næmni lyktarskyns geti leitt til ógleði og jafnvel uppkasta.

Bjargráð

 • Forðastu mat og lykt sem valda þér ógleði.

 • Borðaðu oft og lítið í einu, reyndu að forðast fitu, brasaðan og mikið kryddaðan mat.

 • Hafðu eitthvað nasl á náttborðinu, það hjálpar mörgum að narta í saltkex, saltstangir eða eitthvað sem þolist vel, áður en farið er á fætur.

 • Drekktu vel til að forðast þurrk og hægðatregðu t.d vatn, kamillute og rifsberjate. Kolsýrðir drykkir geta ýmist verið slæmir eða hjálpað.

 • Það hefur hjálpað sumum konum að borða sítrónu, drekka sítrónusafa eða lykta af þeim.

 • Lykta af piparmyntu ilmkjarnaolíu

 • Engifer, t.d. engifersafi eða fæða með engifer í getur hjálpað.

 • Þrýstipunktar, hægt er að fá armbönd við ferðaveiki eða þrýsta á punkt sem kallast PC6 en hann er að finna á innanverðum framhandlegg, þrem fingurbreiddum frá hæl handar, milli tveggja sina, sjá mynd neðst. Best er að þrýsta á punktinn í 3 mínútur á hvorri hönd.

 • Stundaðu líkamsrækt eins og líkami þinn leyfir

 • Góð tannhirða getur dregið úr ógleði.

 • Minntu sjálfa þig á að þetta er tímabundið ástand.

 • Þiggðu alla hjálp sem þér býðst frá vinum og fjölskyldu.

 • Reyndu að draga úr streitu.

 • Hlustaðu á líkama þinn.

 • Láttu tilfinningar þínar í ljós, ef þú ræður ekki við aðstæður hikaðu ekki við að leita hjálpar.

Ef fyrri bjargráð duga ekki og þú ert slæm af ógleði og uppköstum og finnur fyrir eftirfarandi einkennum hafðu þá samband við ljósmóður og lækni því hægt er að meðhöndla ógleði og uppköst með lyfjum.

 • Heldur engu niðri, ekki heldur vökva.

 • Kastar upp blóði.

 • Finnur fyrir sjóntruflunum, svima eða yfirliði.

 • Minnkandi þvagútskilnaði.

 • Munnþurrki.

 • Erfiðleikar við öndun.

 • Andleg vanlíðan.

Hyperemesis Gravidarum

Sumar konur finna fyrir mun ýktari einkennum en aðrar þegar kemur að ógleði og uppköstum á meðgöngu. Alvarlegasta form meðgönguógleði er kallað Hyperemesis Gravidarum.

Einkenni hyperemesis eru eftirfarandi:

 • Þrálát uppköst, a.m.k. 3x á dag og mjög mikil ógleði

 • Konan heldur nánast

 • Konan tapar þyngd (oft miðað við 5% af líkamsþyngd eða a.m.k. 3kg)

 • Ketónar mælast í þvagi- konan er þurr

 • Minnkaður þvagútskilnaður

 • Elektrólítaójafnvægi í blóði

Einnig geta einkenni verið:

 • Höfuðverkur

 • Lágt TSH gildi (ofvirkni í skjaldkirtli)

 • Aukið lyktarskyn

 • Breytt bragðskyn

 • Svimi og/eða yfirlið

 • Mjög mikil þreyta-örmögnun

 • Lágur blóðþrýstingur

 • Hraður hjartsláttur

 • Rugl eða einbeitingarskortur

 • Minnkaður teygjanleiki húðar

 • Gula

 • Þunglyndi/kvíði

   

Einkennin hefjast oftast í kringum 4. -6. viku meðgöngunnar og eru gjarnan verst í kringum viku 9-13. Í sumum tilfellum fer ástandið batnandi á vikum 14 til 20 en í sumum tilfellum þjáist konan af ógleði og/eða uppköstum jafnvel alla meðgönguna.

Þetta er algengara hjá frumbyrjum en fjölbyrjum og eru líkurnar á að ástandið endurtaki sig um 15- 20%.

Þættir sem auka á líkur á að kona fái Hyperemesu eru:

 • Næmt lyktarskyn

 • Að vera gjörn á að finna fyrir ógleði t.d. Ferðaveiki eða í tengslum við lyfjaaukaverkanir eða mígreni.

 • Vandmál í innra eyra

 • Fjölburameðganga (hærra hCG gildi)

 • Bakflæði

 • Óeðlilegar þarmahreyfingar

 • Ofþyngd

 • Erfðir

 • Vítamínskortur (helst B6 og zink)

 

Orsakir eru ekki að fullu þekktar en eru meðal annars taldar tengjast hækkandi gildum hormóna eins og hCG, estrógen og prógesterón.

 

Meðferð:

Ef bjargráðin sem talin eru upp í textanum fyrir ofan duga ekki til getur verið þörf á lyfjameðferð og/eða vökvagjöfum og í alvarlegustu tilfellunum getur þurft að leggja konuna inn tímabundið. Það er mikilvægt að hafa samband við ljósmóður í mæðravernd ef þú getur ekki haldið niðri fæðu eða vökva og finnur fyrir einhverjum af þeim einkennum sem hér eru talin upp.

 

Hægt er að fræðast meira um Hyperemesis HÉR

Nóvember 2018
Valmynd