Tvíbura-tvíbura blóðrennslissjúkdómur - twin to twin transfusion syndrome

Tvíbura tvíbura blóðrennslissjúkdómur - Twin to twin syndrome - TTTS

Tvíbura-tvíbura blóðrennslissjúkdómur eða twin to twin transfusion syndrome, TTTS er sjúkdómur sem á sér upptök í fylgju hjá eineggja tvíburum sem hafa sameiginlega fylgju. Orsakir TTTS eru óeðlilegar æðatengingar í fylgjunni milli tvíburanna og verður þá meira blóðflæði til annars tvíburans sem veldur því að hann fær of mikið blóð en hinn fær þá of lítið. Sá sem fær of mikið stækkar þá meira en hinn og myndar meira legvatn. Stærðarmunur er oft í kringum 10-20%.  Sá tvíburi sem fær meira blóðmagn er líka í hættu á að fá hjartabilun í móðurkviði eða eftir fæðingu þar sem mikið álag hefur skapast á hjarta- og æðakerfi hans.

TTTS greinist með ómskoðun en meðal einkenna sem getur gefið vísbendingu um ástandið er óeðlilega mikill vöxtur á legbotnshæð móðurinnar eða ef móðir finnur hreyfingar hjá öðru barninu en ekki hinu. Greiningin er auðveldari hjá tvíburum með þunn belgjaskil þar sem munur verður á legvatnsmagni í kringum tvíburana. Tvíburinn sem fær minna blóðmagn myndar minna legvatn og getur það valdið því að hann sitji fastur við legvegginn og geti lítið hreyft sig (the stuck twin phenomenon). Ef það eru engin belgjaskil er einungis hægt að meta stærðarmun þeirra á meðgöngunni til þess að greina TTTS.

TTTS er sjaldgæft og kemur fram hjá u.þ.b. 10-15% tvíbura sem deila fylgju. Hér á landi greinast um 2-4 tilfelli á ári.Horfurnar eru misjafnar eftir því hvenær á meðgöngunni ástandið kemur í ljós. Gerist þetta snemma á meðgöngu er lítið hægt að gera þar sem meðferð er ekki möguleg á fyrsta þriðjungi. Á öðrum þriðjungi er hægt að reyna að meðhöndla ástandið með því að tappa af legvatni hjá stærri tvíburanum  eða reyna að brenna fyrir æðatenginguna með leiseraðgerð en hún er framkvæmd erlendis. Ef ástandið kemur í ljós á þriðja þriðjungi (sem er algengast) eru horfurnar frekar góðar og getur lausnin falist í fæðingu fyrir tímann. Í einstaka vægari tilfellum kemur ástandið ekki í ljós fyrr en börnin eru komin í heiminn en þá er oftast lítill munur á stærð barnanna en litamunur á húð og annað barnið hefur meira blóðmagn en hitt.






Mynd fengin af twinstuff.com

 

Nóvember 2018

Valmynd