Brjóstakorn

Upphafið og ábótargjafir

12.maí 2015

Í upphafi brjóstagjafatímabilsins framleiðir hin nýbakaða móðir broddmjólk sem dugir flestum börnum vel þar til hin eiginlega mjólkurframleiðsla hefst. Margir foreldrar hafa áhyggjur af því að barnið sé svangt fyrsta 1-2 sólarhringinn því oft sést ekki mikil mjólk koma frá brjóstunum og barnið getur farið að vilja hanga á brjóstinu nánast stanslaust.

Raunin er sú að börnin eru mjög dugleg að ná mjólkinni úr brjóstunum og það hvort að mjólk sést leka frá brjóstinu eða ekki segir lítið til um framleiðslugetu þeirra. Einnig er engin fylgni milli þess hvort konur leka á meðgöngu eða ekki og því hversu mikil framleiðslan verður eftir að barnið fæðist.

Börnin fæðast með forða og eru sjaldnast svöng til að byrja með. Þau byrja þó flest að leita að brjóstinu skömmu eftir fæðingu og sjúga mjög fljótt ef þeim er boðið brjóst en það er vegna sogviðbragðsins sem þau fæðast með og er nauðsynlegt til þess að þau nærist. Börnin drekka vanalega mikið fyrstu klukkutímana eftir fæðinguna en sofna svo og mörg eru mjög mikið sofandi fyrsta sólarhringinn. Einnig geta mörg börn kúgast mikið og verið með klígju á fyrsta sólarhringnum sem truflar brjóstagjöfina. Þá getur hjálpað að móðirin handmjólki brodd t.d. í litla skeið eða staup og gefi barninu. Barnið gæti ælt í kjölfarið en það hjálpar því að losna við legvatn og slím úr maganum sem veldur klígjunni. Oftast byrja börnin svo fljótlega að vilja taka brjóstið en það getur þurft að endurtaka þetta í nokkur skipti. Það er mikilvægt að móðirin örvi brjóstin með handmjólkun eða jafnvel rafmagnspumpu ef barnið tekur ekki brjóstið í fyrstu, til þess að stuðla að góðri mjólkurframleiðslu.

Á öðrum sólarhring eru flest börn farin að vakna og vilja hanga mikið á brjóstinu. Hér tekur við krefjandi tími þar sem margir foreldrar telja barnið vera svangt og að það sé ekki næg mjólk. Þá vilja margir grípa til ábótagjafar. Ábótin er þó í flestum tilfellum óþörf og getur frekar truflað eðlilegt upphaf brjóstagjafar. Því meira sem barnið er á brjósti, því fyrr hefst mjólkurframleiðslan og því er gott að leyfa barninu að vera sem mest á brjósti. Það er mikilvægt að móðirin fái næga hvíld á meðan þessu stendur og því mikilvægt að reyna að halda gestagangi í lágmarki svo móðirin geti lagt sig með barninu. Á þessum tíma finnst mörgum foreldrum mjög freistandi að bjóða barninu snuð. Það er vissulega val hvers og eins en mælt er með að bíða með snuðið þar til brjóstagjöfin er komin á gott ról. Ef barninu er boðið snuð á þessum tíma sem það vill helst hanga á brjóstinu er verið að minnka þá örvun sem brjóstin fá og sömuleiðis fær barnið þá minna magn af broddmjólkinni. Mjólkurframleiðslan hefst þá seinna og meiri líkur eru á að barnið verði svangt og að gripið sé til ábótargjafa. Börn sem eru löt að sjúga brjóstið ættu að nota snuð sem minnst til þess að þreyta þau ekki um of því þá hafa þau ekki næga orku í að sjúga brjóstið þegar kemur að brjóstagjöf.

Þegar mjólkurframleiðslan hefst á 3. - 5. degi fer svo að komast meiri regla á gjafirnar og móðirin fær þá aðeins lengri pásur á milli gjafa.

 

Í sumum tilfellum getur þó þurft að gefa börnum ábót á þessum tíma. Það eru helst börn sem fæðast mjög létt en getur einnig átt við um börn sem fæðast mjög stór. Börn sem fæðast eitthvað fyrir tímann þurfa einnig oft aðstoð í formi ábótagjafa til að byrja með en sogviðbragð þeirra og samhæfing milli sogs og kyngingar getur verið óþroskað og því þarf oft að aðstoða þessi börn í fyrstu. Ef barnið virðist ekki vera að fá nóg eða er farið að gulna er mikilvægt að skoða vel orsakirnar en barnið getur til dæmis verið að taka brjóstið vitlaust. Það er mikilvægt að ljósmóðir eða brjóstagjafaráðgjafi aðstoði foreldra við að meta þetta.

Þegar þarf að grípa til ábótagjafa á fyrstu sólarhringum er mjög mikilvægt að móðirin mjólki sig samhliða gjöfunum. Bestur árangur næst yfirleitt með handmjólkun en það getur verið tímafrekt og lýjandi og því gott að nota góða rafmagnspumpu með til þess að mjólka. Oftast er byrjað á því að leyfa barninu að leggjast á brjóstið í smá tíma og móðirin mjólkar sig svo. Í byrjun er alveg eðlilegt að það komi lítið og markmiðið er ekki að ná sem mestri mjólk heldur að örva framleiðsluna. Mjólkin sem næst er þá geymd í kæli fram að næstu gjöf og má þá velgja hana undir heitri vatnsbunu og nota í næstu ábótargjöf og þannig er smám saman hægt að skipta þurrmjólkurábót út fyrir brjóstamjólk. Athugið að ekki má hita brjóstamjólk í örbylgjuofni.

Ábótin er gjarnan gefin með fingurgjöf eða í staupi og reynt að forðast notkun pela til þess að trufla ekki brjóstagjöfina. Einnig er mjög gagnlegt að nota svokallað hjálparbrjóst en þá er barnið lagt á brjóst og lítilli sondu rennt upp í barnið meðfram vörtunni. Þá sýgur barnið brjóstið og örvar það á sama tíma og það fær ábótina úr sondunni. Þegar barnið er um það bil 3-5 daga gamalt má svo byrja að mjólkurvigta barnið til þess að sjá hversu mikið það drekkur úr brjóstinu og þá er hægt að gefa ábót í takt við vökvaþörf barnsins. Barnið er þá vigtað (með bleiu og í fötum) áður en brjóstagjöf hefst og svo aftur þegar það hefur lokið við að drekka og sýnir mismunurinn á tölunum þá það magn sem barnið drakk. Það er mikilvægt að gæta þess að barnið sé þá í sömu fötum og með sömu bleiu og áður. Ef þarf að skipta á barninu í miðri gjöf þarf að vigta það aftur fyrir og eftir bleiuskipti til að fá réttar tölur.

 

Fyrstu dagar litla barnsins geta reynst mjög grefjandi fyrir nýbakaða foreldra og skiptir miklu máli að reyna að hvílast sem allra mest og þiggja þá aðstoð sem býðst að hverju sinni. Brjóstagjöfin krefst mikillar vinnu og einbeitingar þessa fyrstu daga en með góðri hjálp og þolinmæði gengur þetta vel í langflestum tilfellum.

 

Janúar 2019

 
Valmynd