Brjóstakorn

Að kúgast, hósta og snúa höfðinu

12.maí 2015

Snúningsviðbragðið hjálpar barni að finna vörtuna. Það er til staðar við fæðingu en hverfur við 2 - 4 mánaða aldur. Sumir telja þó að það vari lengur hjá börnum sem eru á brjósti. Ef snúningsviðbragðið er ofurvirkt getur barn truflast auðveldlega og orðið pirrað þegar það á að grípa brjóstið.

Viðbragðið að kúgast ver loftvegi barns fyrir stórum hlutum. Það er örvað mun framar í munni ungbarns en fullorðins. Sumir nýburar kúgast við þrýsting á miðja tungu. Viðbragðið er ofurvirkt í sumum börnum og ef það er stöðugt örvað getur það valdið því að barnið verður fráhverft brjóstinu. Þetta getur verið vandamál ef móðir hefur óvenjulega langar geirvörtur, hefur kröftugt losunarviðbragð eða ef ónærgætnum næringaraðferðum er beitt.

Ef barn byrjar að kúgast við þrýsting á miðja tungu nær það ekki að draga vörtutoppinn að mótum harða og mjúka gómsins. Afleiðingin verður sú að barnið klemmir vörtuna, veldur móðurinni sársauka og nær ekki nægilegri mjólk úr brjóstinu. Þar sem þetta tengist þroska barnsins er ekki auðvelt að laga það, en einfaldar æfingar gætu hjálpað.  Hægt er að prófa að láta foreldri hreinsa fingur vel (vera með stuttklipptar neglur) og setja upp í góm barnsins. Fingurinn er svo smám saman færður innar í munn barnsins til þess að æfa það í að taka vörtuna innar í munnin. Þetta getur tekið nokkra daga. Þegar búið er að finna punktinn þar sem barnið byrjar að kúgast er fingurinn látinn hvíla á gómnum rétt áður en þeim punkti er náð. Þegar barnið hefur sogið þar nokkrum sinnum er fingrinum rennt aðeins ofar, að gómmótunum. Þegar það hefur sætt sig við fingurinn á eðlilegu dýpi án vandræða er komin tími til að prófa brjóstið. Það getur verið hjálplegt að gefa smá mjólk með.

Hóstaviðbragðið verndar barnið fyrir ásvelgingu (aspiration) vökva í loftvegi. Það getur verið vanþroska í fyrirburum og jafnvel sumum fullburða börnum. Hósti í gjöf er venjulega viðbragð við vökva á niðurleið (kyngingarvandamál) en hósti á milli gjafa getur verið viðbragð við vökva á uppleið (bakflæði).

Nóvember 2019

Valmynd