Brjóstakorn

Áhyggjur af mjólkurmagni og vaxtarkippir

12.maí 2015

Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að algengasta ástæða þess að mæður hætta brjóstagjöf er að þær telja sig ekki hafa næga mjólk. Langflestar mæður geta þó framleitt næga mjólk fyrir barnið sitt og þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að mjólkurframleiðslan sé ekki næg.

Ákveðin hegðun barna getur valdið því að foreldrar telja barnið ekki vera að fá nóg. Þegar barnið kvartar við brjóstið, sýgur brjóstið mjög lengi eða virðast allt í einu vilja drekka mun oftar en venjulega koma áhyggjur foreldra gjarnan fram. Þessi hegðun barnsins á sér oftast aðra skýringu. Í sumum tilfellum kemur mjólkurlosunarviðbragðið seint fram og barnið verður óþolinmótt. Barnið getur verið þreytt eða yfir sig æst og þarf að sjúga lengur til þess að ná ró. Stundum Þarfnast barnið nálægðar við móður eða líður einfaldlega ekki vel.

Vaxtarkippir geta verið ein skýringin á auknum sogtíma barnsins. Þá sjúga þau brjóstið oftar og lengur til þess að örva brjóstin til að framleiða meiri mjólk. Vaxtarkippir virðast koma oftast á eftirfarandi aldri:

2.-3. vikna

6. vikna

3. mánaða

Barnið gæti viljað sjúga á klukkutíma fresti í 1-2 daga en fellur síðan aftur hægt í sama gjafafjölda og áður.  

Sogmynstur barns og líkamsstarfssemi móður getur breyst með tímanum.  Barn getur orðið tæknilegra færara um að ná meira mjólkurmagni á styttri tíma og þannig verið að fá nóg að drekka.  

Þegar mjólkurframleiðsla móður hefur aðlagast kröfum barnsins finnst móður brjóstin verða mýkri og hún finnur ekki fyllingu milli gjafa jafnvel þótt þau séu að framleiða sama eða meira magn mjólkur. Leki úr brjóstum verður líka minni eftir því sem tíminn líður og hefur ekkert með mjólkurmagn að gera. Einnig geta konur fundið minna fyrir mjólkurlosunarviðbragðinu þegar líður á brjóstagjöfina.

Nóvember 2019

Valmynd