Brjóstakorn

Brjóstagjöf eftir keisaraskurð

12.maí 2015

Sömu grundvallaratriði gilda um brjóstagjöf eftir keisaraskurð og fæðingu um leggöng. Þegar fylgjan hefur verið fjarlægð úr leginu hefst hormónaferlið sem örvar mjólkurmyndunina. Áður var talið að keisaraskurðurinn sem slíkur hefði þau áhrif að mjólkurframleiðslu seinkaði. Aðgerðin sjálf getur mögulega haft einhver áhrif, þá sérstaklega ef mikið hefur blætt, en það sem er talið spila stærstan þátt er aðskilnaður móður og barns eftir aðgerðina. Minni snerting móður og barns og færri tækifæri til þess að leggja barnið á brjóst virðist því hafa mest um það að segja hversu vel brjóstagjöfin kemst af stað. Það er því mikilvægt að móðirin fái barnið í fangið um leið og hægt er og að barnið sé lagt á brjóst sem allra fyrst. Í dag fær móðirin barnið yfirleitt á bringuna á meðan hún er enn á skurðarborðinu og er jafnvel reynt að leyfa barninu að sjúga brjóstið ef það er farið að leita. Annars er barnið lagt á brjóst helst um leið og er komið inn á vöknun þar sem móðirin er fyrst eftir aðgerðina að jafna sig.  Ef þarf að flytja barnið á vökudeild eftir keisaraskurð aðstoðar ljósmóðir móðurina við að handmjólka brjóstin sem fyrst til þess að hún fái örvun.

Fyrstu dagana eftir aðgerðina getur móðirin fundið fyrir verkjum og er þá mikilvægt að finna brjóstagjafastellingu sem henni líður vel í. Sumum mæðrum finnst gott að liggja á hliðinni. Þá eru púðar notaðir til þess að stuðla að vellíðan hennar, t.d. undir höfuð, milli fóta og við bakið og getur einnig hjálpað að setja lítinn kodda eða upprúllað handklæði yfir kviðinn til að verja skurðsvæðið frá mögulegum spörkum frá barninu. Ef móðir er með smá brjóst getur hjálpað að hafa kodda undir barninu til þess að hækka það aðeins upp.  

Öðrum finnst betra að sitja og er þá yfirleitt betra að sitja í góðum stól en í rúminu. Það er gott að hafa þá kodda eða brjóstagjafapúða undir barninu, bæði til að koma því fyrir í þægilegri hæð og til að vernda skurðsvæðið. Mörgum finnst gott að gefa barninu í fótboltastellingunni þar sem barnið kemur þá ekki nálægt skurðsvæðinu.

Það er mikilvægt að leggja barnið sem oftast á brjóst fyrstu dagana (og nætur) og sleppa snuði og ábótargjöfum nema sérstakar ástæður gefi tilefni til þess.

Einnig er gott að passa upp á að taka verkjalyf reglulega yfir daginn til þess að slá á verkina og þannig gera brjóstagjöfina þægilegri.

Janúar 2019

 
Valmynd