Brjóstakorn

Brjóstagjöf er góð vörn gegn veikindum

12.maí 2015

Mæður nýbura og ungbarna eru oft áhyggjufullar vegna flensufaraldra og annarra veikinda sem ganga meðal manna. Þær hafa þó flestar í fórum sínum sterkt vopn fyrir börnin sín sem er brjóstagjöfin. Í brjóstamjólk eru efni sem styrkja varnarkerfi nýbura gegn pestum.

Brjóstabörn geta þó eftir sem áður orðið veik en fá þá venjulega veikina vægari.

Ef mæður smitast sjálfar er mikilvægt að þær haldi brjóstagjöf  áfram. Það er liður í að hjálpa barninu að verjast. Þær hafa að öllum líkindum smitast nokkrum dögum áður en þær urðu einkenna varar. Á þeim tíma er líkami þeirra byrjaður að mynda mótefni. Þau mótefni berast með mjólkinni til barnsins og hjálpar þeim að verjast veikinni. Ekki er vitað hvort veirurnar sjálfar komast yfir í mjólkina en það er talið ólíklegt miðað við rannsóknir á fyrri faröldrum. Ef mæður treysta sér ekki til að hafa barnið í svo náinni snertingu í veikindunum er sjálfsagt að mjólka brjóstin og fá ósmitaðan fjölskyldumeðlim til að gefa barninu hana.

Það er engan veginn hægt að koma í veg fyrir að móðir smiti barn sitt en það er hægt að minnka líkurnar. Góður handþvottur er mikilvægur sem aldrei fyrr. Það er líka mælt með að mikið veikar mæður noti maska við umönnun barna sinna á meðan smitskeiðið stendur yfir (1 degi fyrir einkenni-7 dögum eftir að einkenni byrjuðu) því ekki er alltaf auðvelt fyrir móður með barn í höndunum að grípa bréfþurrku.

Aðalsmitleiðir flestra veirusýkinga eru hósti og hnerri eða réttara sagt öndunarfæradropar sem berast með hósta og hnerra. Þannig að fólk þarf að vera í nokkuð nánu sambandi til að smitast. Veiran getur líka lifað í dropum sem lenda á yfirborði þannig að almennt hreinlæti skiptir máli. Það er skynsamlegt að forðast mannmarga staði og samneyti við fólk með flensueinkenni ef ungbarn er á heimilinu.

Ef barnið veikist er mikilvægt að það fái brjóstamjólkina áfram. Eins og áður segir fær það mótefni með henni og einnig er algengt ef börn fá hita að þau þurfi að sjúga brjóst jafnvel oftar en endranær til að uppfylla aukna vökvaþörf. Það ætti ekki að gefa barninu aðra vökva t.d. vatn eða þurrmjólk því það veikir varnarmátt brjóstamjólkurinnar. Þetta gildir til 6 mánaða aldurs. Eftir það byrja margar mæður að kynna aðra fæðu fyrir börnum sínum sem er eðlilegt. Brjóstamjólkin á þó að vera í aðalhlutverki áfram og á flensutímabilum er skynsamlegt að halda í brjóstagjöfina jafnvel ívið lengur en ætlað var.

Það er í góðu lagi fyrir mæður með börn á brjósti að taka inn flensulyf sem eru í boði. Þau á að taka sem allra fyrst eftir að einkenna verður vart en það getur líka gagnað að taka þau fyrribyggjandi ef mikið samneyti hefur verið við smitaðan einstakling. Börnum sem veikjast má líka gefa flensulyf hvort sem þau eru á brjósti eða ekki. Þessi lyf á auðvitað eingöngu að taka inn í samráði við lækni. Skammtar fara þá eftir aldri. Það er einnig í lagi að bólusetja konur sem eru með barn á brjósti.

Janúar 2019

 
Valmynd