Brjóstakorn

Brjóstahöfnun

12.maí 2015

Sum börn vilja ekki fara á brjóst strax eftir fæðingu en vilja svo taka það seinna. Það getur því borgað sig að reyna aðeins áfram og sjá hvort barnið taki ekki brjóstið á endanum. Ef móðir hefur nægar mjólkurbirgðir eru góðar líkur á því að barnið taki brjóstið af sjálfsdáðum, yfirleitt ekki seinna en við 4-6. vikna aldur. Stundum þurfa mæður að handmjólka sig eða fara í brjóstapumpu reglulega fyrstu dagana til að örva mjólkurmyndun ef barnið neitar brjóstinu.

Ef barn nær ekki að taka brjóstið verður það ergilegt og getur það valdið vanlíðan hjá móður og dregið úr kjarki hennar og annarra sem eru í kring. Konum líður gjarnan eins og barnið sé að hafna þeim og getur það reynst erfitt.
Mikilvægt er að fá leiðsögn hjá ljósmóður og/ eða brjóstagjafaráðgjafa til þess að læra leiðir til þess að auka líkur á að barnið taki brjóstið. Til eru ýmis hjálpartæki sem geta hjálpað barninu að læra að taka brjóstið.

Ástæðurnar geta verið ýmsar, t.d. óþroskað sog, tunguhaft, flatar eða innfallnar geirvörtur o.fl.

Mikilvægt er að móðir hafi barnið húð við húð eins fljótt og hægt er eftir fæðingu, það örvar barnið til þess að vilja sjúga og örvar brjóstin til að framleiða mjólk.  Stundum verður aðskilnaður á milli móður og barns fljótt eftir fæðingu og getur það í sumum tilfellum valdið því að barnið vilji ekki taka brjóstið strax. Ef barnið fer á brjóst eftir fæðinguna er mikilvægt að fá aðstoð með að sjá hvort það sé að taka brjóstið rétt og leyfa því að vera eins lengi á og það vill.

Barn vill frekar grípa í brjóst þar sem mjólkurflæðið er gott, þannig að ef barn fer á brjóst og flæði er lítið eða ekkert grípur það kannski en ekki vel. Þau eru ófær um að ná mikilli mjólk svo þau japla í smá stund og sofna svo. Þetta er líklega staðan hjá mörgum börnum á fyrstu dögunum þar til mjólk móðurinnar fer að aukast.

Flestar mæður hafa næga mjólk/brodd fyrir barnið sitt fyrstu dagana. Mikilvægt er að barnið grípi geirvörtuna vel til þess að ná broddinum og þannig örva brjóstin til þess að framleiða meiri mjólk.

Janúar 2020

 

Valmynd