Brjóstakorn

Brjóstastíflur og brjóstabólgur

12.maí 2015

Einkenni

Helstu einkenni brjóstabólgu eru roði, hiti, bólga og verkur í brjóstinu á afmörkuðu svæði og getur hún verið með eða án þess að konur fái hita. Brjóstabólga kemur fram sem aumur blettur eða hnútur í brjósti. Um 3-10% mjólkandi mæðra fá brjóstabólgu.

Brjóstabólga getur verið án sýkingar, þar sem er roði, eymsli og hiti í brjósti.

Brjóstabólga getur verið með sýkingu, þar sem er roði, hiti og eymsli í brjósti ásamt hitahækkun (≥38,5˚C) í meira en 24 klst. Flensulík einkenni og kuldahrollur getur komið fram.

Brjóstabólgu getur fylgt brjóstaígerð (abscess) þar sem bólgan veldur graftarpolli í brjóstvef.

Orsakir

Orsakir brjóstabólgu geta verið margar:

Sár á geirvörtu

Ófullnægjandi tæming úr brjósti

Röng staðsetning barn á brjósti, barnið nær ekki góðu taki eða ósamhæft sog barns

Löng hlé á milli gjafa

Mikil mjólkurframleiðsla

Fatnaður sem þrengir að brjóstum

Streita og/eða þreyta hjá móður

Aðskilnaður móður og barns

Meðferð

Þegar brjóstabólga kemur upp er mikilvægasta meðferðin að tæma brjóstið oft og vel, en stífla í mjólkurgangi er oftast orsök brjóstabólgu. Gott er að reyna að hvílast og nærast eins vel og hægt er, jafnvel skríða upp í rúm og hafa barnið nálægt með óhindraðan aðgang að brjóstinu. Mikilvægt er að hætta ekki með barnið á brjósti þegar brjóstabólga er til staðar, þar sem það eykur líkurnar á sýkingu og ígerð.

Hitabakstur á brjóstið í nokkrar mínútur fyrir gjöf getur hjálpað til við að tæma brjóstið og auðvelda mjólkurflæði. Best er að staðsetja barnið þannig á brjóstinu að hakan snúi að bólgunni/stíflunni, það auðveldar tæmingu á því svæði. Best er að reyna að leggja barnið fyrst á sýkta brjóstið til þess að auka líkur á að það tæmi sem mest úr því brjósti. Einnig er gott að nudda brjóstið varlega á meðan á gjöf stendur, en gott er að nudda brjóstið frá stíflunni og í átt að geirvörtu. Stundum getur verið gott að handmjólka eða nota mjaltavél eftir brjóstagjöf ef brjóstið mýkist ekki vel eftir gjöf. Mikilvægt er að passa að barnið taki brjóstið rétt og vel. Eftir brjóstagjöf er gott að nota kaldan bakstur í nokkrar mínútur til þess að draga úr bólgu, bjúg og verkjum.

Oft duga þessar ráðleggingar til þess að laga brjóstabólgu. Ef kona hefur verið með einkenni brjóstabólgu, hita og flensulík einkenni í 24 klst þarf að meðhöndla sýkinguna með sýklalyfjum, ásamt því að halda áfram að leggja barnið ört á brjóst. Gott er að taka inn verkjalyf á meðan mestu verkirnir og hitinn er að ganga yfir.

Febrúar 2020

Valmynd