Brjóstakorn

Að gefa eitt brjóst eða tvö?

12.maí 2015

Flestum mæðrum finnst betra að bjóða barni bæði brjóst í hverri gjöf fyrstu dagana.  Sog barnsins örvar mjólkurframleiðslu og gjöf beggja brjósta hjálpar til að koma í veg fyrir þan og stálma í brjóstum. 

Í hverri gjöf er best að breyta um byrjunarbrjóst.  Ef fyrst er gefið hægra brjóst og svo skipt yfir á vinstra, ætti að breyta röðinni í næstu gjöf.  Til að muna hvaða brjóst var síðast gefið má nota ráð eins og nælu, brot á brjóstainnleggi, skipta hring milli handa o.s.frv.  Ef það gleymist hvaða brjóst var gefið síðast er þó enginn skaði skeður.

Stundum er mæðrum sagt að tæma brjóst sín alveg eftir hverja gjöf með mjólkun þeirrar mjólkur sem barnið skilur eftir.  Þetta er ekki raunhæft og í raun er mjólkandi brjóst aldrei tæmt. Þetta gæti verið ráðlagt ef of lítil mjólk er til staðar og verið er að reyna að auka framleiðslu, en undir venjulegum kringumstæðum er það óþarfi. 
Þegar brjóstagjöf er komin vel á veg fara margar mæður yfir í það að gefa aðeins annað brjóstið í gjöf.  Þó er alltaf hluti mæðra sem heldur áfram að gefa bæði brjóst í hverri gjöf. Sumar eru með börn sem eru lengi að drekka.  Sumar eru með lítil brjóst eða hafa farið í brjóstaaðgerð og enn aðrar bara kjósa það að hafa þennan háttinn á. 

Apríl 2020

 

Valmynd