Brjóstakorn

Góð byrjun er mikilvæg

12.maí 2015

Brjóstagjöf ætti að vera auðveld og vandræðalaus fyrir flestar konur þegar þær hafa náð réttum tökum. Það tekur alltaf smá tíma að læra réttu handtökin og fyrir móður og barn að læra á brjóstagjöfina. Mikill meirihluti kvenna er fullkomlega fær um að hafa börn sín eingöngu á brjósti í 4-6 mánuði. Einstaka kona mjólkar þó ekki nægilega eða getur ekki haft barn sitt á brjósti af einhverjum orsökum. Til dæmis eftir sumar brjóstaaðgerðir, vegna hormónasjúkdóma eða vanþroska á kirtilvef. Ástæður geta líka verið vegna ástands hjá barni svo sem tunguhaft, skarð í vör og góm, veikt eða óþroskað sog og fleira.

Góð byrjun hjálpar til við að tryggja að brjóstagjöf verði ánægjuleg reynsla bæði fyrir móður og barn. Til þess að brjóstagjöf komist vel af stað geta góðir fyrstu dagar skipt sköpum. 

Til þess að auka líkur á því að brjóstagjöfin gangi vel, er mikilvægt að barnið sé húð við húð móður eins fljótt og hægt er eftir fæðingu og fái óhindraðan aðgang að brjóstinu fyrstu dagana. Mikilvægt er að koma barninu á brjóst sem fyrst eftir fæðingu. 

Mikilvægt er að fá barnið til að grípa geirvörtuna vel.  Barn sem grípur vörtu vel fær vel af mjólk.  Þegar barn grípur illa fær það ekki næga mjólk og getur það einnig valdið sársauka í vörtunni. Það er mikilvægt að fá ljósmóður til að aðstoða og skoða grip barnsins eftir fæðingu til þess að ganga úr skugga um að það taki brjóstið vel. Móðir þarf að vera örugg í að leggja barn sitt rétt á brjóst áður en hún fer heim af fæðingadeild. Gott grip skiptir sköpum fyrir árangur og er lykillinn að árangursríkri brjóstagjöf.

Leggja ætti barnið að brjósti með maga að bringu móður og nefbrodd að geirvörtunni. Þegar barnið opnar munnin þarf að klemma brjóstið saman eins og munnur barnsins liggur, vísa vörtunni upp í góm á barninu og renna henni eftir gómloftinu upp á tunguna. Það er neðri kjálki barnsins sem kemur fyrst að brjóstinu og það er neðri hluti vörtunnar sem fer meira upp í munninn en sá efri. Þegar barn sýgur rétt er takturinn þannig að það er opnun-stopp-lokun og aftur opnun-stopp-lokun.  Það er í þessu örlitla stoppi (sem þó sést alveg) við mestu opnun kjálkans sem mjólkin rennur upp í munninn. 

Nóvember 2019

Valmynd