Brjóstakorn

Hattur sem lausn við brjóstahöfnun

12.maí 2015

Þunnan sílikon hatt/mexíkanahatt er hægt að nota til aðstoðar barni sem nær ekki taki á brjósti eða til þess að verja tímabundið sárar geirvörtur móður. Mikilvægt er að velja hatt af kostgæfni. Lengd túttunnar má ekki vera meiri en lengdin á munni barnsins frá mótum mjúka og harða gómsins til vara. Ef svo er verður aðalálagið á mótum vörtu og vörtubaugs sem leiðir til þess að barnið nær lítilli mjólk. Það getur líka leitt til þess að barnið er sífellt að kúgast og verður fráhverft brjóstinu vegna þess. Vídd túttnanna er líka breytileg til að koma til móts við misbreiðar vörtur. Meðalvartan er 15-17 mm breið við rótina. Sum börn virðast eiga erfitt með að ráða við vörtur yfir meðalbreidd. Stórir hattar geta valdið sama vandamáli hjá sumum börnum. Því er mikilvægt að velja rétta stærð á hatti, en of lítill hattur getur valdið sársauka á geirvörtu.

Þegar mexíkanahattur er settur á brjóstið er hann brettur inn, lagður innbrettur og örlítið teygður til hliðanna akkurat á miðja geirvörtu og slétt þar úr honum, þannig sogast geirvartan inní hattinn. Sumum finnst betra að hita hattinn undir heitu vatni áður en lagt er á til að gera hann meðfærilegri. Á einum stað á 360° hattsins er búið að skera úr honum, sá hluti hattsins fer þangað sem nef barnsins mun fara, til þess nef þess liggi ekki utan í plasti.

Þegar venja á af hatti yfir á brjóstið beint hefur gefist vel að byrja í miðri gjöf þ.e. gefa í nokkrar mínútur með hattinum, taka hann af og bjóða brjóstið. Þá er vartan yfirleitt komin út og mesta spennan undir vörtunni farin. Slík afvenjun gengur misjafnlega eins og gefur að skilja og yfirleitt best því fyrr sem hún er framkvæmd. Smærri börn þurfa oft lengur á hatti að halda og fyrirburar eru oft látnir hafa hatt sem millistig frá pela yfir á brjóst.

Hattar eru ófullkomin tæki og fylgjast þarf vel með gjöfum. Stellingu og grip þarf að meta því barn getur sogið hattinn illa. Ef barn sýgur hattinn aðeins fremst er líklegt að sár myndist og lítil mjólk komi. Móður er ráðlagt að pumpa eftir gjafir ef mjólk er ekki næg eða mjólkurvigta til að fylgjast með árangri.

Október 2019

Valmynd