Brjóstakorn

Er barnið mitt að fá nóg?

12.maí 2015

Flestar mæður geta framleitt næga mjólk fyrir barn sitt. Ónóg mjólkurframleiðsla tengist oft læknisfræðilegum vandamálum s.s. brjóstaaðgerð, lélegu sogi barns, rangri stöðu við brjóstið, pillunni, vanstarfsemi skjaldkirtils og fleiri þáttum. Flest af þessum vandamálum er oftast hægt að leiðrétta.

Eftir fæðingu er broddur í brjóstum sem barn sýgur fyrstu dagana. Barn sýgur oft 8-12 sinnum á sólarhring. Mjólkin ætti að koma á 2-5 degi eftir fæðingu. Barn þitt fæðist með auka vökva í vöðvum sínum og skilst hann út á fyrstu 48 klst. eftir fæðingu. Þetta þyngdartap er venjulega um 200-230 gr eða um 5-7% af líkamsþyngd. Nýru nýbura við fæðingu eru óþroskuð og því ekki tilbúin til að fá of mikið magn af vökva á þessum tíma. Þess vegna er þetta litla magn af broddi (límkenndi gulleiti vökvinn sem kemur úr brjóstunum áður en mjólkin kemur) fullkomin fæða fyrir meltingu barns og broddurinn er einnig mjög ríkur af mótefnum. Á fyrsta sólarhring eftir fæðingu framleiðir þú um 37 ml af broddi. Barn þitt sýgur 7-14 ml í hverri gjöf.

Venjulega á öðrum til þriðja degi fara brjóst þín að breytast þ.e. verða heitari, fyllri og þyngri. Á þessum tíma byrjar þú að framleiða breytta mjólk sem er samsett mjólk af bæði  broddi og þroskaðri mjólk. Mjólkin er gulleit að lit. Seinna verður hún hvít, eða á 5-7 degi. Finni móðir ekki breytingar á brjóstum sínum er ráðlagt að hafa samband við brjóstagjafaráðgjafa, ljósmóður eða heilsugæsluhjúkrunarfræðing.

Þegar mjólkin er komin, ættir þú að finna að brjóstin eru fyllri fyrir gjafir og mýkri eftir gjafir. Þú gætir séð mjólk dreypa úr eða jafnvel sprautast úr öðru brjóstinu er barnið sýgur hitt brjóstið. Þetta er svokallað losunarviðbragð.

Barn þarf að fara á brjóst að minnsta kosti 8-12 sinnum á sólarhring fyrstu vikurnar. Mörg nýfædd börn sjúga 10-12 sinnum eða oftar (kannski ekki á fyrsta sólarhring en eftir það). Þetta á bæði við um langar gjafir og stuttar gjafir. Fyrstu dagana sýgur barnið oftar og styttra í einu. Einnig þarfnast barn nálægðar móður, til tengslamyndunar. Að gefa brjóst á 1½-3 klst fresti yfir daginn er eðlilegt fyrstu dagana. Ef barn þitt sýgur á 4 klst fresti á fyrstu tveim vikunum þá þyngist barnið ekki nóg.

Ef barn sofnar á fyrra brjósti og er frekar latt að sjúga er mjög gott að hafa það eingöngu á bleyjunni og nota húð við húð móður til að örva það til að sjúga. Einnig er gott að skipta tímanum á bæði brjóstin. Barn þitt ætti að sjúga taktfast í 10-15 mín á hverju brjósti eða lengur. Það getur tekið pásur af og til en ætti að sjúga kröftuglega á meðan á gjöf stendur. Oft sofnar barn við brjóstið þegar það hefur sogið vel og ætti þá að vera ánægt. Sé barn syfjað í allri gjöfinni nær það meiri mjólk með því að sjúga í 5 mín á hvoru brjósti þar það hefur fengið nægju sína. Skipting á milli brjósta örvar sog barns.

Þú ættir að heyra barn kyngja er það sýgur brjóstið á 2-3 degi.
Þegar mjólkin er komin þá getur verið næg mjólk í öðru brjóstinu þannig að barn sjúgi einungis annað brjóstið í einu.

Ein besta aðferðin til að vita hvort barnið þitt fái nóg er að skoða útskilnað barnsins. Á fyrsta sólarhring ætti barnið að bleyta eina bleyju, á öðrum sólarhring 2-3 bleyjur, á þriðja sólarhring 3-4, á fjórða 4-6 og þar eftir fleiri en 6 bleyjur. Þá ætti þvagið að vera orðið tært/ljóst að lit með mildri lykt. Á fyrstu dögunum getur verið appelsínu/rauð litaður blettur í bleyjunni sem lítur út eins og blóð en eru þvagkristallar, sem er eðlilegt og kemur fyrir hjá sumum nýfæddum börnum.

Jafnframt segja hægðir barnsins til um næringarinntekt þess. Á fyrsta sólarhring skilar barnið svörtum tjörukenndum hægðum, á öðrum til þriðja degi þegar mjólkin fer að aukast verða þær mýkri svartar/grænar, á þriðja degi grænar/gular og á fjórða til fimmta degi gular kornóttar. Þá ætti barnið að skila hægðum 4x á sólarhring miklu magni en gæti skilað hægðum í hverja bleyju, þá minna magni.

Fylgst er með þyngdaraukningu barns á sjúkrahúsi eða í heimaþjónustu ljósmóður. Barnið er vigtað þegar það er þriggja sólarhringja gamalt og síðan í fimm daga skoðun. Eftir það er heldur eftirlit áfram í ungbarnavernd heilsugæslunnar.

Október 2019

Valmynd