Brjóstakorn

Brjóstagjafastellingar

12.maí 2015

Öfug kjöltustaða

Móðir situr, barn liggur þvert yfir kjöltu móður og snýr maga að maga. Barnið liggur á framhandlegg handar sem er fjær brjósti, lófi styður milli herðablaða barnsins og greipin er lauslega utan um hálsinn. Þetta veitir stuðning bæði við höfuð og háls. Hendin nær brjósti stjórnar geirvörtu með U-gripi, þá er vinstri lófi á brjóstkassa undir vinstra brjósti, þegar hann snýr upp kemur þumallinn á utanvert brjóstið en hinir fjórir fingurnir á svæðið sem snýr að miðju. Brjóstið hvílir þá í U formi sem myndast milli þumals og vísifingurs.

Þegar barn opnar munninn ýtir móðir með lófanum milli herðablaða barnsins. Þetta gerir það að verkum að haka barns kemur fyrst að brjósti og veitir því tækifæri til að grípa vel ósamhverft um vörtuna. Ekki ýta á hnakka barnsins. Hann er viðkvæmur og barn bregst við með því að streitast á móti. Gott er að nota púða til þess að halda barni nálægt brjóstinu.

Þegar mæður eru komnar á lagið geta þær jafnvel rennt hinum handleggnum undir barnið og þannig lokið gjöf í venjulegri kjöltustöðu. Öfug kjöltustaða er góð þegar móðir og barn eru að læra á brjóstagjöfina.

Kjöltustaða

Móðir situr, barn liggur þvert yfir kjöltu móður og snýr maga að maga. Höfuð barnsins liggur á framhandlegg eða í olnbogabót þeirrar handar sem er nær brjóstinu. Framhandleggur styður við bak barnsins og höndin er um rass og mjaðmir þess. Gott er að nota púða til þess að halda barni nálægt brjóstinu.

Besta tak á brjósti í kjöltustöðu er samlokutak, þá er brjóstið klemmt saman milli þumals annars vegar og hinna fingranna á móti. Passa að klemma saman eins og munnur barns liggur. Hugsið ykkur muninn á að reyna að bíta í fótbolta eða stóra þykka samloku sem hægt er að móta flata. Sá hluti vörtubaugs sem snýr að neðri kjálka barns kemur fyrst að munninum. Vörtu er vísað upp í góminn og efri vör er sá hluti sem síðast lokast yfir vörtuna. Takinu er haldið meðan barnið sýgur fyrstu sogin, hvílir og er byrjað aftur að sjúga. Þá er byrjað að losa varlega.

Kjöltustaðan er ein algengasta gjafastellingin og sú sem oftast er sýnd á myndum. En hún getur verið erfið fyrir nýjar, óvanar mæður. Það getur verið erfitt að stjórna höfði barnsins í þessari stellingu og nýfædda barninu hættir til að kreppast í hnút. Kjöltustaða er heldur ekki besti valkosturinn ef móðir og barn eiga í vandræðum með grip eða ef móðir er með sárar vörtur. Þessi stelling hentar vel fyrir eldri börn þar sem brjóstagjöfin gengur vel.

Fótboltastaða

Móðir situr og barnið liggur við hlið hennar. Móðir hefur þéttan púða við hlið sér til að barn sé lárétt í hæð við brjóst móður. Barn snýr maga að móður og líkami þess er undir handlegg hennar. Rass barnsins hvílir við bak stólsins, sófans eða veggsins sem setið er upp við. Efra bak barns hvílir á framhandlegg móður og hún styður við háls þess með höndinni. Hin hendin stjórnar geirvörtu með C-gripi, þar sem fjórir fingur eru undir brjósti og þumalfingur vel fyrir ofan geirvörtubaug.

Þetta er mjög gagnleg staða fyrir konur sem farið hafa í keisaraskurð því barnið kemur hvergi nærri skurðsárinu. Hún er líka góð fyrir mæður með flatar eða inndregnar vörtur og börn með grip eða sogvandamál því móðir hefur betri yfirsýn yfir brjóst og barn. Hún hefur líka betri stjórn á höfði barns.

Hliðarlega

Móðir liggur á hliðinni með kodda undir höfði. Barn liggur á hliðinni og snýr að móður, gjarnan með púða eða upprúllað handklæði við bakið. Móðir lyftir neðri hendi upp og efri hendi stýrir geirvörtu.

Hliðarlega er hjálpleg mæðrum sem eru að jafna sig eftir keisaraskurð eða spangarklippingu. Hún er góð leið til að róa barnið fyrir svefn, fyrir næturgjafir eða ef móðir er þreytt og þarf hvíld um leið og hún gefur brjóst. 

Biological nurturing “barnið finnur geirvörtuna sjálft”

Móðir er í hálfsitjandi stöðu þannig að það fari vel um hana og hún nái slökun. Barnið er lagt ofan á móður húð við húð, maga við maga með höfuð á milli brjóstanna og barnið leitar sjálft að geirvörtunni. Þyngdaraflið er látið styðja við barnið sem hvetur leitunarviðbragðið.

Þegar móðir og barn eru í nánu húð við húð sambandi eftir fæðinguna, flæðir oxytocin auðveldlega hjá móður. Áhrifin eru jákvæð fyrir brjóstagjöf og tengslamyndun. Í biological nurturing heldur móðirin á barninu eins lengi, oft og í eins miklu húð við húð snertingu og hún vill, jafnvel þó barnið sé ekki svangt eða að drekka.

Júní 2019

Valmynd