Brjóstakorn

Kynging og sog

12.maí 2015

Heilbrigðir nýburar eru fæddir með viðbrögð sem hjálpa þeim við brjóstagjöf. Þessi viðbrögð eru t.d. kynging, sog, snúningur höfuðs, að kúgast og hósta.

Hjá börnum sem fæðast fyrir tímann, skaðast eða veikjast svo og óregla á líkamsstarfsemi getur haft áhrif á virkni þessara viðbragða. Ef viðbragð er bælt eða ofvirkt getur barnið átt í vandræðum með að nærast eðlilega.

Kynging þróast snemma í fósturlífi (12-14 vikur) með kyngingu legvatns. Vökvi aftast á tungunni ásamt viðbrögðum efnaviðtaka í koki setja af stað kyngingu hjá nýbura. Vanstarfsemi kyngingarviðbragðs getur leitt til lélegra gjafa og valdið of lítilli þyngdaraukningu.

Sog hefur sést innan legs í fyrsta lagi við 15-18 vikur. Við 28 vikur sjást óskipulegar og handahófskenndar munnhreyfingar. Næringarlaust sogmynstur þróast áður en sog til næringar þróast. Næringarlaust sogmynstur breytist með þroska. Bæði fjöldi soga í hverju sogtímabili og sogkraftur aukast þegar barnið þroskast. Sumir telja að reynsla af næringarlausu sogi sé gott fyrir fyrirbura.  Við 32. viku byrjar sterkt sog með mynstri sogtímabila og hvílda að koma fram. Við 34-35 viku geta sum börn haldið reglulegu sogmynstri sem nægir til árangursríkrar næringar. Samt sem áður eru gjafir á þessum aldri yfirleitt stuttar og börnin þreytast fljótt.

Sog er örvað með snertingu við varir og tungu og strokum á mótum harða og mjúka góms. Heilbrigð börn breyta soghraða í gjöf. Mjólkurflæði er lítið áður en mjólkurlosunarviðbragðið fer af stað í fyrsta sinn, svo byrjun gjafar einkennist af hröðum stuttum sogum sem hvetja losunina. Þá breytir barnið yfir í kröftugt en hægara og taktfastara mynstur sogs til næringar. Mynstrið er skipulagt kringum sogtímabilin og aðlagað að miklu mjólkurflæði eftir mjólkurlosunarviðbrögð. Ör kynging sést í sogi til næringar eða u.þ.b. 1-3 sog á móti 1 kyngingu. Venjulega getur barn tekið 10-20 sog/kyngingarhringi áður en það tekur hvíld. Þetta mynstur er endurtekið í nokkrar mínútur. Þegar nálgast enda gjafar verða sogtímabilin styttri og hvíldirnar lengri. Á þessum tíma getur barnið verið að innbyrða hitaeiningaríka eftirmjólk og ætti að fá að enda gjöfina sjálft ef hægt er.

Næringarlaust sog er hraðara, grynnra og með færri kyngingum, 6-8 sog á móti 1 kyngingu. Hraust fullburða börn geta skipt fram og til baka úr sogi til næringar í næringarlaust sog í einni gjöf. Breytilegu sogmynstri í eðlilegri gjöf ætti ekki að rugla saman við barn sem ekki getur sogið sér til næringar. Þau börn eru gjarnan með lokuð augu og geta ekki haldið uppi eðlilegum sogtímabilum til næringar. Einkennandi eru stuttar, grunnar og höggvandi kjálkahreyfingar, engin kynging og skortur á viðbrögðum. Þetta eru vísbendingar um að barnið geti ekki náð mjólk. Í þessum tilfellum getur verið þörf á mjólkurvigtun til að sanna málið.

Október 2019

Valmynd