Brjóstakorn

Leið lyfja í brjóstamjólk

12.maí 2015

Með fáum undantekningum er þéttni flestra lyfja í móðurmjólk sérlega lítil og skammturinn sem barnið fær of lítill til að valda áhrifum. Mikilvægt er að kanna vel skráðar upplýsingar um lyf og þéttni þeirra í móðurmjólk. Almennar lyfjaskrár eru ekki besti staðurinn til að afla slíkra upplýsinga því að nær án undantekninga setja lyfjaframleiðendur viðvörun við brjóstagjöf á lyf, aðallega vegna hræðslu við málarekstur en sjaldan vegna lyfjafræðilegra ástæðna.

Magn lyfs sem fer í mjólk byggist á mörgum þáttum s.s. fituleysanleika lyfsins, sameindastærð, blóðþéttni sem næst í blóðrás móður, prótínbindingu í blóðrás móður og helmingunartíma. Í flestum tilfellum er mest ákvarðandi þáttur um ferð lyfja yfir í mjólk þéttni þess í blóði móður. Lyf fara bæði í og, í nær öllum tilfellum, út úr mjólk aftur í samræmi við þéttni í blóðrás móður. Um leið og þéttni lyfsins í blóði móður byrjar að falla fer lyfið út úr mjólkinni samhliða. Fituleysanleiki lyfja er þáttur sem skiptir miklu máli. Lyf sem eru mjög fituleysanleg fara yfir í mjólk í meira magni næstum án undantekninga. Lyf sem eru virk í miðtaugakerfi virðast fara á sömu eiginleikum yfir í mjólk. Þannig að ef lyf virkar í miðtaugakerfi má búast við hærri þéttni þess í mjólk. Próteinbinding skiptir líka miklu máli. Lyf hringsóla í blóðrás móður ýmist bundin albumini eða laus. Það eru þau lausu sem komast yfir í mjólk en þau bundnu verða eftir í blóðrás móður. Þess vegna hafa lyf með mikla prótínbindingu t.d. warfarin lága þéttni í mjólk vegna þess að þau eru lokuð úti.

Þegar lyf hefur komist í móðurmjólkina og barnið hefur innbyrt hana þarf lyfið að fara gegnum meltingarveg barnsins áður en það er tekið upp. Sum lyf eru mjög óstöðug í þessu umhverfi vegna ensíma og sýra. Almennt eru magar nýbura ansi súrir og geta gert mörg lyf óvirk t.d. heparín og insúlín. Önnur lyf eru illa tekin upp í blóðrás nýbura. Að auki eru mörg lyf leyst sundur í lifur og komast aldrei í plasma þar sem þau myndu virka. Þessi upptökuvandamál vinna þegar allt kemur til alls að því að minnka heildaráhrif margra lyfja. En það eru vissulega til undantekningar á þessari reglu og það þarf að hafa í huga að áhrif lyfs á meltingarveg geta verið mikil og valdið niðurgangi, hægðatregðu o.fl. 

Október 2019

Valmynd