Brjóstakorn

Lögun brjósta

12.maí 2015

Brjóstaþroski gerist ósamhverft og flestar konur hafa annað brjóstið aðeins stærra en hitt, stundum er áberandi stærðarmunur. Einstaka sinnum eru brjóst rör eða flöskulaga. Það þarf ekki að hafa neina merkingu en getur bent til líkamlegs ástands sem hindrar fulla brjóstagjöf.

Samkvæmt rannsókn framleiddu konur með vanþroska öðrum eða báðum megin 50% eða minna af þeirri mjólk sem nauðsynleg var fyrir barnið. Margar þessara kvenna fundu engar breytingar eða stækkun á brjóstum á meðgöngunni. Þótt sumar næðu rólegri aukningu í framleiðslu með góðri hjálp var 61% þeirra ófær um að ná fullri framleiðslu á fyrsta mánuði. Mikilvægt er að fylgjast vel með barninu til að tryggja eðlilegan vöxt. Mörgum gefst vel að gefa ábót með hjálparbrjósti við þessar aðstæður. Konan þarf líka auka aðstoð til að hvetja til mestu mögulegu framleiðslu hvenær sem þessir líkamlegu annmarkar eru sjáanlegir. Góð ráðgjöf getur haft úrslitaáhrif þegar kona hefur þessi einkenni því þau geta þýtt akkúrat ekki neitt. En þar sem vandkvæði koma snemma fram í brjóstagjafaferlinu þurfa konur með óvenjulega löguð brjóst sérstaka athygli og eftirfylgni til að tryggja að þær nái að nýta alla sína getu til mjólkurframleiðslu.

Sjúkdómar með óeðlilegu hormónastreymi geta haft áhrif  á hæfni til mjólkurframleiðslu. Blöðrur á eggjastokkum sem gefa frá sér hormón geta skýrt tilfelli þar sem konur hafa mjólkað eðlilega með fyrra barn en stálmar ekki eða framleiðir mjólk. Vanhæfni til að mjólka eftir fæðingu barns er óeðlilegt fyrirbæri og getur krafist tilvísunar til innkirtlafræðings.

Ónógur kirtilvefur er sjaldgæfur. Konan merkir ekki breytingar á brjóstum á meðgöngu eða eftir fæðingu. Við þreifingu finnst aðeins kirtilvefur í flekkjum í annars linu brjósti. Þrátt fyrir góða aðstoð eru þessar konur ófærar um að mjólka nægilega. Það geta verið tengsl milli ónógs kirtilvefs og skjaldkirtilssjúkdóms. Í tilfellum þar sem mjólkurframleiðsla er léleg í byrjun getur komið til greina að reyna lyf sem auka mjólkurframleiðslu.

Það virðist verða brjóstvöxtur við hverja meðgöngu og það lítur út fyrir að aukinn þroski verði við hverja brjóstagjöf. Eða kannski hafa konur aukið sjálfstraust eða betri stuðning í annað skipti. Allavega hefur rannsókn á konum sem gekk illa með fyrstu brjóstagjöf sýnt að þær framleiddu marktækt meiri mjólk við annað barn.

Apríl 2020

Valmynd