Brjóstakorn

Magn og gæði

12.maí 2015

Mjólk manna getur haft ýmis litbrigði. Broddur getur verið tær, skærgulur, hvítur, appelsínugulur, bleikur og ljósbrúnn. Börn drekka líklega nokkuð oft litaðan brodd en við sjáum það bara ekki. Sum fæða, vítamín, lyf og bragðbættir drykkir geta litað mjólk án þess að skaða barnið.  Bleik eða brún mjólk fær lit sinn af blóði úr mjólkurgöngum sem er að hreinsast út við upphaf brjóstagjafar. Þetta er kallað „Rusty pipe syndrome”og er vel þekkt fyrirbæri. Það er óhætt að gefa barninu þótt móður finnist það kannski truflandi.

Magn brodds er lítið á fyrsta degi, sérstaklega hjá frumbyrjum. Enda getur magi nýburans lífeðlisfræðilega tekið við 6 ml á fyrsta degi og 12 ml á öðrum degi. Þótt magn broddsins sé ekki mikið getur það mætt þörfum barnsins. Handmjólkun er einföld leið til að ná broddi til að gefa barni sem ekki fer á brjóst. U.þ.b. 0.5 ml er stærð sopa hjá nýfæddu barni og 8-10 sopar af þeirri stærð er nægilegt í gjöf á fyrsta sólarhringnum fyrir fullburða heilbrigt barn.

Samkvæmt rannsóknum er heildarframleiðsla mjólkur á fyrsta sólarhring 3-32 ml. Magnið eykst svo hægt og rólega á næstu dögum og er orðið u.þ.b. 175 ml á öðrum degi og 360-500 ml á 3ja degi. Á þessum tölum má sjá að magnið er ansi breytilegt en almennt má segja að heilbrigðar konur geta framleitt mikið magn mjólkur. Hvað barnið tekur til sín er hins vegar breytilegt milli einstaklinga og sá þáttur er ákvarðandi um mjólkurframleiðslu móður frekar en raunveruleg framleiðslugeta.

Einkennandi litabreyting verður þegar broddur breytist yfir í þroskaða mjólk. Mjólk sem orðin er fullþroska er hvít og formjólk hennar getur verið rétt eins og skýjað vatn en eftirmjólkin rjómagul. Formjólkin er þynnri en eftirmjólkin og því fyllri sem brjóstin eru því minna er fituinnihald mjólkurinnar miðað við heildarmagn.

Október 2019

Valmynd