Brjóstakorn

Mjólkurbóla

12.maí 2015

Stundum myndast hvítar bólur á geirvörum á fyrstu dögum eftir fæðingu. Oftast er þetta afleiðing af röngu sogi barnsins. Hins vegar getur mjólkurbóla birst eins og þruma úr heiðskíru lofti, stundum mörgum vikum eða mánuðum eftir að brjóstagjöf hófst. Það eru óljós tengsl milli mjólkurbólu og stíflu þannig að stíflan myndast í samsvarandi svæði brjóstsins og bólan á vörtunni. Mjólkurbóla getur þó komið á eftir stíflunni eða án þess að stífla myndist og að sjálfsögðu getur stífla myndast án mjólkurbólu. Sumir telja tengsl vera milli mjólkurbólu og sveppasýkingar.  

Mjólkurbóla er alltaf á vörtutoppi og hún lítur út eins og graftarbóla, hvít og útbungandi. Það er þó ekki gröftur undir heldur kristölluð mjólk. Ef mjólkurbóla veldur ekki sársauka og tengist ekki stíflu er í lagi að láta hana eiga sig. Hún hverfur af sjálfu sér á mislöngum tíma. Ef um verki er að ræða geta þeir verið umtalsverðir, sérstaklega meðan barnið sýgur og þá einkum í lok gjafar. Til að mýkja upp mjólkurbólu má dýfa vörtu í heitt vatn eða setja bómullarhnoðra vættum í  matarolíu á vörtuna inná brjóstahaldara. Hiti ofan á hnoðrann bæði linar sársaukann og mýkir hraðar upp þannig að hægt er að fletta efstu húðlögunum af. Stundum dugar þetta. Heilbrigðisstarfsfólk getur opnað mjólkurbólu með dauðhreinsaðri sprautunál. Það getur blætt nokkrum dropum sem er saklaust. Svo má kreista vörtubauginn. Út getur komið dröngull af hvítu efni og þar á eftir buna af mjólk. Sársaukinn hverfur þá yfirleitt umsvifalaust. 

Október 2019

 

Valmynd