Brjóstakorn

Mjólkurlosunarviðbragð

12.maí 2015

Þegar barn hefur sogið kröftuglega í nokkrar mínútur finna margar mæður sérstaka fiðringstilfinningu í brjóstunum og taka eftir auknu mjólkurrennsli. Þetta er mjólkurlosunarviðbragð. Það fer af stað nokkrum sinnum í hverri gjöf og mæður taka oft eftir leka úr hinu brjóstinu þegar það fer af stað. Börn bregðast oftast við mjólkurlosunarviðbragðinu með örari kyngingum.  Jafnvel þótt ekki finnist fiðringur í brjóstunum er hægt að vita að það hefur farið af stað með því að fylgjast með sogmynstri barnsins.  Stundum fer losunarviðbragðið af stað þegar móðir heyrir barn sitt gráta áður en gjöf er hafin.  Hægt er að stöðva leka úr öðru brjósti á meðan gefið er af hinu með dyrabjölluaðferðinni. Ýtt er beint framan á vörtuna eins og dyrabjöllu og haldið á meðan talið er upp að 15. Þá ætti lekinn að vera hættur. Þetta getur þó þurft að endurtaka nokkrum sinnum.

Stöku sinnum kemur sterkt mjólkurlosunarviðbragð barni á óvart og því svelgist á og tekur andköf. Oftast nægir að rétta barn upp og leyfa því að jafna sig. En ef þetta er alltaf að endurtaka sig getur komið til greina að láta barnið sjúga upp í móti og láta þyngdaraflið þannig hjálpa til. Auðveldast er að leggja barnið á brjóst í sitjandi stöðu og þegar það hefur gripið vörtuna ð halla sér út af þannig að barnið liggi ofan á. Öðrum mæðrum finnst betra að koma mjólkurlosunarviðbragðinu af stað með handmjólkun og láta það sterkasta ganga yfir áður er barnið er lagt á brjóst. Svo eru sum börn sem nýta sér þá tækni að láta umframstreymið seytla út um munnvikið án þess að sleppa takinu. 

Sumar mæður finna alls ekkert mjólkurlosunarviðbragð en það fer samt af stað ef brjóstagjöf gengur eðlilega. Hjá öðrum getur fiðringurinn verið það kröftugur að þær upplifa það sem verki. Á fyrstu vikum brjóstagjafar dregur svo smátt og smátt úr tilfinningunni, jafnvel hverfur hún alveg.

Október 2019

Valmynd