Brjóstakorn

Næturgjafir

12.maí 2015

Brjóstamjólk er auðmelt og því vakna flest börn á brjósti oftar á nóttunni en börn sem fá þurrmjólk. Rannsóknir hafa líka sýnt að brjóstabörn eru eldri þegar þau fara að sofa alla nóttina. Það er þó vel hægt að hafa barn á brjósti og fá nægan næstursvefn. 

Hægt er að gefa næturgjöf án þess að vakna almennilega, sem gerir það auðveldara að sofna aftur. Þægilegasti staðurinn fyrir næturgjafir er liggjandi í rúminu. Þegar barnið er komið á brjóst getur móðirin dottað eða að minnsta kosti hvílst. Til að skipta um brjóst er hægt að leggja barnið á bringuna á sér og velta yfir á hina hliðina (eða ýta barninu undir og klifra yfir það ef lítið pláss). Þegar barnið er búið að drekka nægju sína getur það sofið áfram við hlið móður sinnar. Mæður þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að þær velti sér yfir barnið. Jafnvel í svefni verða þær varar við barnið. Það ætti þó ekki að láta barnið sofa uppí ef foreldrar reykja, eftir neyslu áfengis, fíkniefna eða lyfja sem breyta svefnmynstri. Ef rúmi er ýtt að vegg er komið í veg fyrir að barn detti út úr rúmi.  Börn ættu ekki að sofa í vatnsrúmi, á koddum eða öðru mjúku undirlagi sem hindrað gæti öndun. Foreldrar og börn hafa sofið hlið við hlið frá upphafi mannkyns og samsvefn gerir öllum í fjölskyldunni kleift að fá nægan svefn. 

Ekki hentar öllum að láta börnin sofa uppí. Sumar mæður kjósa hægindastóla eða ruggustóla fyrir næturgjafir. Þá er gott að hafa teppi og kodda í seilingarfjarlægð. Það er um að gera að vera sveigjanlegur varðandi skipulag næturgjafa. Það getur breyst í samræmi við breyttar þarfir foreldra og barna. 

Börn sem sofa hjá foreldrum venjast á endanum á eigið rúm og þau hætta á endanum að vakna á nóttunni.

Júlí 2019

Valmynd