Brjóstakorn

Of lítil mjólkurframleiðsla

12.maí 2015

Til þess að tryggja góða mjólkurframleiðslu frá upphafi er mikilvægt að leggja barn ört á brjóst fyrstu dagana og halda síðan áfram 8-12 gjöfum á sólarhring. Ef þess er ekki kostur er mikilvægt að móðir mjólki sig jafn oft og barnið myndi drekka. Of fáar og stuttar gjafir eru helstu orsakir of lítillar mjólkurframleiðslu. Aðrar orsakir geta verið streita, kvíði eða andleg vanlíðan, álag í foreldrahlutverki, reykingar, sumar brjóstaaðgerðir eins og brjóstaminnkun, hormónasjúkdómar, vanþroskaður kirtilvefur eða lyf sem móðir þarf að taka. 

Til þess að auka mjólkurmyndun er mikilvægt að finna orsökina og leiðrétta hana ef þess er kostur. Annars eru helstu ráðin þau að auka tíðni, lengd og kraft brjóstagjafar og vera viss um að barnið taki brjóstið rétt. Gullna reglan er að því meira sem barnið sýgur því meiri mjólk kemur. Bjóða ætti barninu brjóst á 2-3 klst fresti. Bjóða bæði brjóstin í gjöf og halda barninu við efnið, t.d. með því að hafa það léttklætt og handmjólka upp í það á meðan það drekkur. Brjóstanudd örvar mjólkurframleiðslu, bæði á meðan barnið drekkur og á milli gjafa. Einnig má pumpa brjóstin eftir gjafir. Húð við húð meðferðin getur hjálpað og á það við á meðan barnið drekkur og á milli gjafa. 

Ef barnið sýgur vel en sofnar fljótt á brjóstinu er hægt að nota skiptigjafir. Einnig er það tilvalið ef barn eyðir löngum hluta gjafar í tott án þess að drekka og þyngist hægt. Þegar notast er við skiptigjafir er skipt um brjóst um leið og áhugi barnsins minnkar eða hægja tekur verulega á sogi barnsins. Barnið er tekið upp, reynt að láta ropa, skipt er á bleiu og barnið vakið og sett á hitt brjóstið. Þegar sogið hægist aftur er barnið tekið af brjósti, það örvað og aftur boðið fyrra brjóstið. Þannig er skipt um hægra og vinstra brjóst til skiptist í 20-30 mín. í senn á tveggja tíma fresti yfir daginn og fjögurra tíma fresti á nóttunni. Það þarf að passa að barnið grípi vel og vartan sé langt upp í munni.   

Mikilvægt er að móðirin fái næringarríkan mat, drekki vel, hvílist og nái slökun yfir daginn.

Júlí 2019

Valmynd