Brjóstakorn

Öfug kjöltustaða

12.maí 2015

Barn snýr maga að maga. Púði þarf að vera í kjöltu móður til að hækka barn í vörtuhæð. það er mikilvægt að munnur barns sé mjög nálægt vörtunni í byrjun. Ef ætlunin er að gefa vinstra brjóst liggur barn á hægri framhandlegg móður. Lófinn styður milli herðablaða barnsins og greipin er lauslega utan um hálsinn. Þetta veitir stuðning bæði við höfuð og háls. Þegar barn opnar munninn ýtir móðir með lófanum milli herðablaðanna. Þetta gerir það að verkum að haka barns kemur fyrst að brjósti og veitir því tækifæri til að grípa vel ósamhverft um vörtuna. Ekki ýta á hnakka barnsins. Hann er viðkvæmur og barn bregst við með því að streitast á móti

Sumir mæla með að barn liggi utan um móður sína eins og komma. Ef lítur út fyrir að barn geti átt erfitt með öndun þarf móðir aðeins að þrýsta barni betur að sér með olnboganum. Það breytir afstöðunni þannig að nef barns helst frítt. Í öfugri kjöltustöðu er U tak áhrifaríkast til stuðnings brjóstinu.

Sumir mæla með meiri notkun ríkjandi handar. Þá er hægri hönd rétthentrar konu notuð við öfuga kjöltustöðu á vinstra brjósti og svo í fótboltastöðu á hægra brjósti.
Oft er mælt með þessari stöðu á fyrstu dögum barna sem þurfa sérstaka aðstoð við að grípa vel. Móðir hefur betri stjórn á að leiðbeina barninu á brjóstið. Sérlega góður stuðningur er við háls barnsins sem gerir þessa stöðu heppilega fyrir fyrirbura, lítil börn, vöðvaslöpp börn eða börn með yfirbit.
Þegar mæður eru komnar á lagið geta þær jafnvel rennt hinum handleggnum undir barnið og þannig lokið gjöf í venjulegri kjöltustöðu. Öfug kjöltustaða er venjulega ekki stelling til frambúðar.
Öfug kjöltustaða virkar ekki vel með miðjugripi og hún getur verið óþægileg ef ekki er nægur stuðningur við handlegginn sem barnið hvílir á. Hún er góð ef móðir er spennt eða stressuð því þá hættir konum til að draga handlegginn eilítið út frá líkamanum. Í þessari stöðu dregur hún barnið þá í ennþá betri stöðu.

Apríl 2020

Valmynd