Brjóstakorn

Of mikil mjólkurframleiðsla

12.maí 2015

Á fyrstu dögunum eftir fæðingu þegar mjólkin kemur í brjóstin er eðlilegt að brjóstin verði þanin og móðir mjólki umfram það magn sem barnið þarfnast. Með tímanum stillast brjóstin af og móðirin fer að mjólka jafn mikið og barnið þarfnast til að vaxa og dafna. Ef ástandið er viðvarandi að móðir mjólki umfram þarfir barnsins er hægt að tala um of mikla mjólkurframleiðslu.

Of mikil mjólkurframleiðsla er yfirleitt klínísk greining. Móðirin neyðist þá til að mjólka sig og geyma umfram móðurmjólk. Það að barnið vaxi og dafni vel er mikilvægt við greiningu, því ástæðan fyrir fullum brjóstum getur verið að barnið sé ekki að drekka nógu vel.  

Of mikil mjólkurframleiðsla getur virst gleðiefni fyrir konur sem mjólka ekki nægilega vel, en mæður sem mjólka of mikið eru í aukinni hættu á of hröðu mjólkurflæði, brjóstabólgu, brjóstastíflu, krónískum verkjum í brjóstum, pirruðu barni, brjóstapumpun eingögu og að hætta snemma með barn á brjósti. 

Helstu einkenni of mikillar mjólkurframleiðslu eru yfirfull brjóst, geta ekki gefið bæði brjóst í gjöf og hratt mjólkurflæði, sem getur valdið því að barnið taki brjóstið of grunnt með tilheyrandi sáramyndun á geirvörtu. Önnur einkenni eru mikill leki úr brjóstum, krónískt þan og eymsli í brjóstum, stíflur og brjóstabólga sökum þess að barnið nær ekki að tæma brjóstin nógu vel. Einkenni hjá barni eru ásvelgingar og andköf þegar flæði mjólkur hefst, óhófleg eða ónóg þyngdaraukning, pirringur á brjósti, tíð uppköst eftir gjafir, vindgangur og sprengihægðir, sem eru jafnvel grænar og froðukenndar. Of mikil mjólkurframleiðsla getur valdið ójafnvægi í inntekt barns á formjólk og eftirmjólk þar sem barnið fær hlutfallslega of mikið af formjólk. Það getur í sumum tilfellum valdið slími og blóðrákum í hægðum. 

Algengasta aðferðin til þess að minnka mjólkurframleiðslu er að gefa aðeins annað brjóstið í einu í ákveðin tíma. Þá er best að byrja á því að mjólka alveg úr brjóstunum eins og hægt er. Því næst er barninu gefið að drekka eins og það vill úr báðum brjóstum. Það sem eftir lifir dags er einungis annað brjóstið gefið í 3-4 klst og svo einungis hitt brjóstið næstu 3-4 klst. Þá helst annað brjóstið óáreitt í 3-4 klst og sendir með því skilaboð til mjólkurfrumna að minnka framleiðslu. Ef 3-4 klst nægja ekki til að hvíla annað brjóstið má lengja tímann. Móðirin ætti að finna fyrir minni framleiðslu á innan við 24-48 klst. Stundum dettur framleiðslan það mikið niður að móðirin þarf að gefa bæði brjóst í hverri gjöf. Aðrar þurfa að nota þessa aðferð endurtekið til að framleiðslan minnki. Ef þessi aðferð virkar ekki væri næsta skref að nota jurtir eða lyf til þess að minnka mjólkurframleiðsluna.

Júlí 2019

Valmynd