Brjóstakorn

Óþægindi vegna stálma

12.maí 2015

Á 3.-6. degi eftir fæðingu þegar fullþroska mjólk kemur í brjóstin í stað brodds verður aukið blóðflæði til brjóstanna vegna mjólkurmyndunar. Ef ekki er losað reglulega úr brjóstunum með árangursríkum hætti er aukin hætta á að stálmar myndist. Þá verður mikill bjúgur í brjóstvefnum sem þrengir að mjólkurgöngum og heftir mjólkurflæði úr brjóstunum. Brjóstin verða þrútin, aum og heit viðkomu og móðirin getur fengið hita.  

Besta meðferðin við stálma er að barnið sjúgi oft og vel. Leggja barnið oft á brjóst og passa að það taki brjóstið vel. Erfitt getur verið fyrir barnið að ná góðu taki á brjóstinu vegna þess hve þrútið það er. Þá getur verið gott að mjólka aðeins úr brjóstinu fyrir gjöf til þess að mýkja það upp eða beita þrýstingi með fingrum í kringum geirvörtu. Einnig er gott að fara í sturtu og nudda brjóstin og mjólka úr þeim í sturtunni til þess að mýkja þau upp.  

Hitabakstrar fyrir gjöf geta hjálpað með því að auðvelda mjólkurflæðið og kælibakstrar í 10-15 mín eftir gjöf geta hjálpað til að minnka verki og bjúg. Mikilvægt er að móðirin hvílist vel, nærist og drekki vel. Panodil og Ibufen geta hjálpað m.t.t. verkja og bólgu. Stálmar ganga yfirleitt yfir á innan við 48 klst ef þeir eru rétt meðhöndlaðir en geta þróast út í brjóstabólgu og brjóstasýkingu ef ekkert er að gert. 

Júlí 2019

Valmynd