Brjóstakorn

Sársauki í brjóstagjöf

12.maí 2015

Sárar geirvörtur

Algengasta orsök sársauka við brjóstagjöf. Besta fyrirbyggingin er að leggja barn rétt á brjóst frá fyrsta degi.

Orsök

Yfirleitt sú að barn er ekki staðsett rétt við brjóstið eða grip þess á brjóstinu er ekki gott nema hvort tveggja sé. Stundum vantar upp á stuðning við annað hvort barnið eða brjóstið. Einnig getur verið að barnið sjúgi ekki rétt. Svo getur orsökin verið blanda þessara þátta. Barn sýgur rétt af eðlisávísun ef það er aðstoðað við rétta staðsetningu og vörtunni er beint rétt inn í munn þess. Ef vel gengur styrkist rétt sog frá gjöf til gjafar. Snuð, pelatútta eða hattur of snemma getur afvegaleitt rétt sog. Einnig getur gengið illa ef móðir og barn bera sig rangt að frá upphafi. Sum börn virðist síðan einfaldlega þurfa sinn tíma í að ná upp færni í réttu sogi.

Einkenni

Sársauki sem er verstur fyrst í gjöfinni en dofnar eða hverfur þegar líður á gjöf. Roði á geirvörtum, bjúgur á vörtutoppi, sprungur eða sáramyndun.

Meðferð

Sjá brjóstakorn um sárar geirvörtur.

Annað sem getur valdið sársauka á geirvörtum

Sveppasýking 

Sveppasýking veldur sársauka í gjöfum og getur verið erfitt að sjá berum augum.

Einkenni

Sársauki í byrjun gjafar sem dofnar en heldur þó áfram og getur orðið verstur í lokin eða eftir að gjöf lýkur. Byrjun á sársauka í vörtum sem hafa verið sársaukalausar í gjöfum í einhvern tíma (jafnvel vikur eða mánuði). Margar konur lýsa sviða eða brunatilfinningu sem jafnvel leiðir inn í brjóstið. Fíngerðar sprungur eða roði á mótum vörtu og vörubaugs.

Meðferð

Fá skoðun og staðfestingu hjá ljósmóður, lækni, hjúkrunarfræðingi, eða brjóstagjafaráðgjafa. Fá viðeigandi lyfjameðferð og fara vel eftir leiðbeiningum. Muna að meðferð gildir alltaf um báðar vörtur og munn barns samtímis. Nota blauta bakstra á vörtur fyrir gjafir. Sjá brjóstakorn um sveppasýkingu á geirvörtum.

Æðasamdráttur í vörtum (Raynaud´s syndrome)

Veldur sársauka sem yfirleitt er meira áberandi eftir að gjöf lýkur.

Einkenni

Verkir (sviði) eftir gjafir sem standa frá nokkrar mínútur og upp í 1-2 klukkutíma. Breytist stundum í sláttverk þegar frá líður. Toppur vörtunnar hvítnar sjáanlega upp á bletti eða alveg. Getur svo blánað, roðnað og hvítnað á víxl.

Meðferð

Laga grip barns á vörtu. Nota snarpheita bakstra (án þess að brenna) á vörtur eftir gjafir í 1-3 mín. Ákveðin bætiefnameðferð er talin geta haft góð áhrif en er lengi að byrja að virka. Lyfjameðferð er gefin í verstu tilfellum.

Mjólkurbóla

Hvítur útbungandi blettur á toppi vörtu.

Einkenni

Verkir í allri gjöfinni og versna þegar á líður. Oftast lýst sem þrýstingsverk. 

Meðferð

Stungið er gat á bóluna eftir örlitla deyfingu og sótthreinsun. Mjólkað út um gatið á eftir og jafnvel er barn lagt á brjóst. Sjá brjóstakorn um mjólkurbólu.

 

Fleiri vandamál geta valdið sársauka í brjóstagjöf en tengjast þá gjarnan undirliggjandi húðvandamálum. Það er sjaldgæfara og þau eru gjarnan löguð hvert á sinn hátt eftir því hvert vandamálið er.

Almennt

Það getur dregið úr sársauka í gjöf að bæta staðsetningu barns og grip þess á brjósti. Það er oft gott að setja blautan bakstur á vörtu áður en barn er lagt á. 

Fyrst og síðast á að leita aðstoðar ef illa gengur að laga sársauka í brjóstagjöf. Það á ekki að pínast og þjást um lengri eða skemmri tíma. 

Brjóstagjöf á að vera sársaukalaus.

Apríl 2020

Valmynd