Brjóstakorn

Snerting

12.maí 2015

Mannveran er vera snertingar. Á fyrstu árum ævinnar skynjum við meira og minna allan heiminn með snertingu. Mesta snertiskyn nýfædds barns er í munninum en allt yfirborð húðar þess þarfnast líka snertingar. Það er börnum til góðs að foreldrar þeirra snerti þau sem mest. Snerting er ein af grunnþörfum barns sem þarf að uppfylla. Því meira þeim mun betra. Barn sem er svipt snertingu er líklegra til að verða vansælt og óvært.

Í nútíma heimi eru foreldrar vitandi eða óafvitandi farnir að forðast snertingu við börn sín, sérstaklega nakin. Við fyrsta mögulega tækifæri eru börn klædd í föt, er það til að forðast kulda eða forðast snertingu? Það er vitað mál að nakið barn við nakta húð foreldris fylgir hita þess, er rólegra og ánægðara. Næst er barnið sett í vögguna. Það er gert til þæginda en foreldrar leitast oft við að hafa barnið sem mest í vöggunni og taka það upp eins sjaldan og þeir komast af með. Reyna jafnvel löngum stundum að rugga barninu í svefn í vöggunni í stað þess að taka það upp í faðminn þar sem það væri mun fljótara að sofna.

Brjóstagjöf ber með sér mikla og nána snertingu. Tilhneiging er í þá átt að líta á langar gjafir sem óþarfar, óþekkt í barni eða að barnið sé að nota brjóstið sem snuð. Þegar barnið er í raun í örvæntingu að reyna að vera í nánd móður sinnar og fá þá næringu sem líkami þess þarfnast. 

Júlí 2019

 

Valmynd