Brjóstakorn

Stuðningur við brjóst í gjöf

12.maí 2015

Tilgangur stuðnings við brjóst á meðan gjöf stendur er bæði mótun þess til að auðvelda barni grip og til að halda uppi þyngd þess í stað þess að það lendi á munni barns. Ef barn er vel staðsett þarf þó ekki að lyfta brjósti upp.

C-tak: Stuðningur við brjóst með þumalfingur fyrir ofan brjóst og hina fjóra undir brjóstinu. Fingurnir þurfa að vera langt frá vörtubaug til að trufla ekki grip barnsins. Þetta er gott tak í fótboltastellingu og hliðarlegu því þá er auðvelt að klemma brjóstið saman eins og munnur barns liggur. Það á ekki vel við í kjöltustöðu eða öfugri kjöltustöðu því þá verður samanklemmt brjóstið þvert á munn barnsins eða eins og fullorðinn ætlaði að bíta í samloku sem haldið væri lóðrétt.

U-tak: Móðir leggur vinstri lófa á brjóstkassann undir vinstra brjósti. Þegar hún snýr honum upp kemur þumallinn á utanvert brjóstið en hinir fjórir fingurnir á svæðið sem snýr að miðju. Brjóstið hvílir þá í U formi sem myndast milli þumals og vísifingurs. Þetta tak hjálpar mæðrum að halda fingrum frá því að trufla grip barns. Það er mjög gagnlegt við kjöltu og öfuga kjöltustöðu því það er auðvelt að móta brjóstið eins og munnur barnsins liggur og tryggir að barn getur náð góðri munfylli brjósts. Þetta tak virkar ekki vel í fótbolta eða hliðarlegu. Í U-taki er móðir ekki með fingurna ofan á brjóstinu sem minnkar freistingu hennar til að þrýsta á “svo barnið geti andað” en það togar oft í vörtu og aflagar grip. 

Skæratak: Móðir styður við brjóstið með því að hafa vörtu milli vísifingurs og löngutangar. Það er vandasamt að ná þessu taki án þess að vera of nálægt vörtunni og trufla þannig grip barnsins en mæðrum með langa fingur getur gefst það vel.

Samlokutak: Brjóstið er klemmt saman nokkrum cm fyrir aftan vörtu eins og munnur barnsins liggur. Þetta er gert til að auðvelda barni grip á stóru stykki af brjóstinu. Hversu ákveðið þarf að gera þetta fer eftir lögun og áferð brjósta. Samlokutak er oft bara notað fyrstu dagana eða vikurnar en síðan hætt. 

Júlí 2019

Valmynd