Brjóstakorn

Sárar geirvörtur - umhirða

12.maí 2015

Þegar sár koma hvar sem er á húð er byrjað á því að hreinsa sárið til að fjarlægja óhreinindi sem gætu valdið sýkingu. Sár á geirvörtum eru engin undantekning. Mælt er með því að þvo sár á geirvörtum með volgu kranavatni eða saltvatni eftir hverja gjöf, til að koma í veg fyrir að sýklar úr munni barnsins nái að hreiðra um sig í sárinu. Sýklar úr munni barnsins eru skaðlausir á heilli húð en geta valdið sýkingu í opnu sári. Mæður geta sprautað á sárið úr brúsa og ættu að gæta vel að góðum handþvotti fyrir og eftir. 

Forsenda þess að sár á geirvörtu grói er að barnið taki brjóstið rétt, sjá leiðbeiningar um álögn á brjóst undir dálknum “Brjóstagjöf”. Þegar búið er að leiðrétta grip barnsins á brjóstinu ætti sárið að gróa tiltölulega fljótt. Til að stuðla að gróanda í sárinu er mælt með rakameðferð í stað þurri meðferð. Hydrogel þynnur yfir geirvörtur halda rakastigi geirvarta réttu og búa til hagstæð skilyrði gróanda. Að nudda móðurmjólk á rofna húð stuðlar ekki að gróanda og getur valdið sýkingarhættu.                      

Sár á vörtum sem gróa ekki eftir að stellingar og grip hafa verið leiðrétt geta bent til sýkingar í sárinu. Staphylococcus Aureus er algengasti sýkingarvaldurinn í sárum. Þegar grunur vaknar um sýkt sár ætti að meðhöndla það með bakteríudrepandi kremi t.d. Bactroban. Það virkar gegn Staphylococcum og flestum Streptococcum auk þess að hafa einhverja virkni gegn sveppum. Einnig er mælt með því að þvo sýkt sár á geirvörtum með mildri sápu tvisvar á dag, auk þess að þvo þær með vatni eftir hverja gjöf. Ef vörtur eru orðnar sjáanlega sýktar og konan kvartar um sáran verk kemur til greina að setja konur á sýklalyf til inntöku.

Júlí 2019

Valmynd