Brjóstakorn

D-MER

08.janúar 2020

D mer (Dysphoric milk ejection)

Það kemur fyrir að konur finni fyrir vanlíðan tengt brjóstagjöf. Það er vanlíðan sem er einungis tengd við brjóstagjöfina og er ekki til staðar annars. Þetta er fremur sjaldgæft fyrirbæri og hefur verið skilgreint sem D-MER og merkir vanlíðan tengd mjólkurlosunarviðbragði. Vanlíðanin hellist yfir konur þegar mjólkurlosunarviðbragðið verður og hverfur nokkrum mínútum síðar, yfirleitt á innan við fimm mínútum.  

Þær tilfinningar sem konur geta meðal annars fundið fyrir er kvíði, svimi, mikill leiði, pirringur, vonleysi, reiði, skömm, ofurviðkvæmni og þunglyndi.  Í mjög alvarlegum tilvikum geta konur fundið fyrir alvarlegum þunglyndiseinkennum og sjálfsvígshugsunum.

Upplifun D-MER er ólík fæðingarþunglyndi, þar sem hún er alfarið tengd mjólkurlosunarviðbragðinu og hormónum sem tengjast því. D-MER getur verið til staðar í nokkrar vikur, mánuði eða alla brjóstagjöfina.

Vanlíðanin er talin tengjast hormónunum sem koma fram við brjóstagjöfina, Prolactin og Oxitocin ásamt Dópamíni. Þegar mjólkurlosunarviðbragðið fer í gang minnkar magn Dópamíns í líkamanum svo magn Prolactins geti aukist og framleitt meiri mjólk fyrir barnið. Flestar konur finna ekki fyrir því þegar þetta gerist en hjá konum með D-MER fellur magn Dópamíns í líkamanum óvenjulega mikið með þeim afleiðingum að konurnar finna fyrir vanlíðan.

D-MER er líkamlegt ástand sem tengist hormónum og er ekki sálrænt ástand.  Einkennin geta verið mismunandi eftir konum og misalvarleg.

Fyrirbærið hefur lítið verið rannsakað og margir vita ekki að það sé til. 

Konum finnst þær eiga að geta gefið barninu sínu brjóst og geta notið þess, nándarinnar og tengslamyndunar. Tilfinningar geta komið fram um að það sé eitthvað mikið að og valdið mikilli hræðslu. Sumar konur hætta snemma með barnið sitt á brjósti vegna þessa.

 

Hvað er til ráða?

Lítið er vitað um hvað hægt er að gera til þess að minnka vanlíðan. Talið er að streita geti gert ástandið verra og er því mikilvægt að reyna að skapa aðstæður þar sem konur finna ekki fyrir streitu og reyna þannig að koma jafnvægi á þau hormón sem tengjast brjóstagjöfinni. Gott er að passa að drekka vel af vatni og minnka neyslu á koffeini. Það er gott fyrir konur að þekkja ástandið og vita hvað er að gerast þegar þær finna fyrir þessu. Það er gott að ræða þessar tilfinningar og líðan við fagaðila, ljósmóður, hjúkrunarfræðing eða lækni og fá aðstoð og ráðleggingar.

Hjálplegar síður

D-MER.org

Australian breastfeeding association

Febrúar 2020

Valmynd