Spurt og svarað

04. mars 2021

innihald í Pukka te fyrir óléttar konur

Góðann dag :) takk fyrir góðann og fræðandi vef. Ég er komin næstum 8 vikur á leið og langar svo að drekka te. Ég keypti sérstakt te fyrir óléttar konur frá Pukka (Pukka motherkind pregnancy), en svo fór ég að lesa innihaldið og sá fullt af kryddum og öðru sem ég hef lesið annarsstaðar að sé hættulegt á meðgöngu. Mig langar að vita hvort það sé í lagi að drekka þetta te, og ef ekki, hvaða te getur ólétt kona drukkið? hér er innihaldið í teinu: Raspberry leaf, Chamomile flower, Nettle leaf, Shatavari root, Peppermint leaf, Sweet fennel seed, Orange peel. Ég hef lesið að allt af þessu fyrir utan Orange peel geti verið mjög slæmt á meðgöngu, og eigi að takmarka, svo ég er mjög hissa á að þetta sé í teinu. Hvernig gæti staðið á því að hlutir eins og nettlu lauf, hindberjalauf, piparmynta, fennel fræ og fleyra sé sett í þetta te? Er ég að taka þetta allt of alvarlega eða á ég að gefa einhverjum öðrum þetta te og drekka eitthvað annað?

Sæl 

Te og jurtir hafa verið notaðar á meðgöngu í áraraðir. Lítið hefur verið rannsakað en þó eitthvað og eitthverjar hugmyndir um það hvaða áhrif jurtate hafa á meðgöngu.  Það er því erfitt að segja með vissu hvort það sé í lagi að drekka þetta te eða ekki. Þetta eru allt jurtir sem hafa verið notaðar á meðgöngu í ýmsum tilgangi. 

Hindberjalauf er t.d. gjarnan notað á síðasta þriðjungi meðgöngunnar til þess að byggja upp styrk í leginu og undirbúa það fyrir fæðinguna, það er talið geta komið af stað samdráttum svo það er ekki ráðlagt að drekka það á fyrsta og öðrum þriðjungi meðgöngunnar. 

Piparmyntute ætti að vera í lagi á meðgöngu 1-2 bollar á dag en er þekkt fyrir að auka tíðarblæðingar

Kamillute er talið geta valdið samdráttum ef drukkið í miklu magni. 

Engifer getur hjálpað mikið til við ógleði en ætti ekki að taka inn meira en 4gr á dag þar sem það getur valdið samdráttum í of miklu magni. 

Af því sem ég hef lesið um notkun jurta á meðgöngu virðast allir vera samála því að notkun í miklu magni geti haft neikvæð áhrif á meðgönguna eða fóstrið. 
Ef þetta te er drukkið í litlu magni ætti það ekki að hafa áhrif á fóstrið eða meðgönguna. 

Þar sem fóstrið er að mótast fyrstu þrjá mánuðina tel ég ráðlagt að forðast það að drekka þetta te þar til eftir fyrstu þrjá mánuðina og leyfa barninu þannig að njóta vafans. 

Til að byrja með gætirðu t.d. fengið þér heitt vatn með sítrónu og smá engifer í. 

Eftir 12. vikurnar ætti þér að vera óhætt að drekka te svo lengi sem það er ekki í óhófi. 1-2 bollar á dag ættu að vera í góðu lagi. 

Hér er ágætis rannsóknarsamantekt um jurtate á meðgöngu ef þig langar að kynna þér þetta betur

Gangi þér vel

Kær kveðja, Jóhanna María Friðriksdóttir, ljósmóðir

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.