Spurt og svarað

23. apríl 2021

Vegna smitvarna

Sælar og takk fyrir góðan þráð. Ég er með spurningu varðandi meðgöngu og sóttvarnir. Nú hefur verið gefin út áætlun um að aflétta öllum höftum og sóttvörnum innanlands en að sama skapi hefur komið fram gagnrýni frá læknasamfélaginu um hvort það sé tímabært og þá með tilliti til þess að hjarðónæmi hefur ekki verið náð á þeim tímapunkti. Ég er ófrísk og gengin 17v+. Ég býst þá ekki við að þiggja bólusetningu á meðgöngu þar sem ég er hvorki í áhættuhóp (reyndar með astma) né í framlínunni, nema klínískar rannsóknir staðfesti að óhætt sé að þiggja bólusetningu á meðgöngu. Ég verð því að öllum líkindum óbólusett frá því höftum er létt og þar til ég fæði barnið. Hvaða ráðleggingar eru gefnar konum í þessari stöðu hvað varðar sóttvarnir? Eigum við enn að fylgja grímuskyldu, 2m reglu og e.t.v. forðast fjölmenna staði og samkomur eða er gert ráð fyrir að við tökum áhættu á að smitast á meðgöngu? Ég geri ráð fyrir að fjöldi kvenna sé nú í þessari stöðu, þ.e. allar þær sem hafa ekki nú þegar þegið bólusetningu og verða/eru ófrískar þangað til röðin er komin að þeim - og þar til þær fæða börnin sín. Það væri því afskaplega gott að fá ráðleggingar eða ráðgjöf sem allra fyrst hvað okkur varðar. Ég hef annars hvergi fundið svör við spurningum mínum. Kær kveðja Þórunn

Sæl, konur á meðgöngu eru í erfiðri stöðu hvað covid varðar því engar rannsóknir hafa verið gerðar á ófrískum konum fyrir utan að lýsa útkomu þeirra kvenna sem hafa fengið covid ófrískar. Þannig að hvort sem bólusetning er þegin eða ekki eru ófrískar konur í óvissunni, við þekkjum ekki áhrif bólusetninga eða þess að fá covid á meðgöngu nógu vel. Líklegast er þó betra að fá bólusetningu heldur en covid og því hafa þær ófrísku konur sem eru í meiri áhættu á að fá covid, fengið bólusetningu. 

Hvað varðar ráðleggingar fyrir óbólusettar ófrískar konur, geri ég ráð fyrir að höfðað sé til almennrar skynsemi, að þær viðhafi persónubundnar sóttvörnir, þ.e. noti grímu, haldi 2 m fjarlægð, spritti hendur og forðist margmenni eins og kostur er. Það er hverrar og einnar að meta hvers konar samkomur þær fara á eða forðast, má þá einnig horfa til samfélagslegra smita á hverjum tímapunkti, þó að maður sé aldrei öruggur. Gangi þér vel!

Kær kveðja, Hafdís Guðnadóttir, ljósmóðir.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.